151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

störf þingsins.

[13:21]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Getur Ísland orðið óbyggilegt á okkar líftíma? Já. Hvert er stærsta hagsmunamálið þegar öllu er á botninn hvolft? Það er Golfstraumurinn. Ef, og jafnvel þegar, Golfstraumurinn breytist er hætta á því að hitastigið hér falli meira en um 10° C, samkvæmt nýlegri úttekt New York Times. Það er mjög mikið. Ísland yrði þá eins og Svalbarði. Og, herra forseti, með fullri virðingu fyrir Svalbarða þá vil ég ekki búa á Svalbarða. Lífinu eins og við þekkjum það væri þar með lokið. Fasteignar okkar yrðu verðlitlar, jafnvel verðlausar. Verðmæti okkar í krónum yrðu einnig verðlaus og fiskurinn færi. Áhrifin yrðu einnig skelfileg annars staðar í heiminum, m.a. hækkun sjávarmáls í Bandaríkjunum, sterkari fellibyljir, nístingskuldi í Evrópu og þurrkar í Afríku.

Herra forseti. Nú eru nefnilega sterkar vísbendingar um að loftslagsbreytingar og bráðnun jökla hafi einmitt áhrif á okkar kæra Golfstraum. Og þótt Golfstrauminn sé ekki að hverfa er hann farinn að hægja á sér og veikjast samkvæmt nýjustu rannsóknum. Það er dauðans alvara fyrir okkur á Íslandi. Einungis þann möguleika að straumurinn fari að haga sér öðruvísi ber að taka mjög alvarlega. Við Íslendingar ættum því að huga miklu meira að hafinu í kringum okkur og ekki síst Golfstrauminum, sem er bókstaflega lífæð okkar. Hann er lífæð okkar, hann er sannkallaður lífsstraumur.

Herra forseti. Flest annað sem við deilum um í þessum sal getur einfaldlega beðið á meðan staðan er svona.