151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

602. mál
[15:24]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er auðvitað ósammála hv. þingmanni um að kerfið í dag sé fjandsamlegt. Við erum að gera mjög vel í samanburði við önnur lönd. Við erum að taka á móti mjög mörgum og veita þeim alþjóðlega vernd, styðja þau mjög vel samkvæmt öllum þeim mælikvörðum og dómum sem við fáum. Við erum að skoða kerfið okkar út frá því hvar við getum lagað það, svarað fólki fyrr sem er einmitt að flýja ofsóknir. Síðan er það líka rangt hjá hv. þingmanni. Fólk er ekki sent til baka í flóttamannabúðir innan Evrópu sem er ekki komið með vernd en hefur sótt um, t.d. í ákveðnum löndum, þar sem við veitum þessum aðilum efnismeðferð. Það er leið sem við förum ásamt nokkrum öðrum löndum í Evrópu af því að við teljum það ekki uppfylla þau skilyrði sem við setjum. En hér erum við að tala um aðila sem eru búnir að fá vernd en ekki einungis þeir sem eru búnir að sækja um vernd. Við erum að setja inn það ákvæði að þau geta sótt um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarástæðna ef staða þess fólks er með þeim hætti í því Evrópulandi.