151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

viðbrögð við upplýsingaóreiðu.

222. mál
[14:58]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Jú, ég get tekið undir það að lykilatriði til að stuðla að skynsamlegri, yfirvegaðri og upplýstri umræðu hlýtur auðvitað að vera það að ýta undir gagnrýna hugsun, ýta undir það að fólk átti sig á því hvar réttra upplýsinga er að leita, hvort búið er að eiga við þær með einhverjum hætti og þess háttar, þannig að fólk geti sjálft tekið afstöðu til þess hvort það tekur mark á einhverju sem það sér á samfélagsmiðlum eða annars staðar á netinu. Ég geri mér grein fyrir því og er sammála því að þarna getur verið um vandamál að ræða en það að opinberir aðilar, opinber nefnd, opinber stofnun eða einhver ætli sér að fara að sortera hvað séu réttar upplýsingar, leyfilegar upplýsingar og upplýsingar sem megi ekki koma fyrir augu almennings finnst mér mjög ógeðfelld tilhugsun og myndi alltaf taka afstöðu gegn slíkum tillögum.