151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

ávana- og fíkniefni.

714. mál
[17:20]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Er þetta byggt á vísindalegri þekkingu? Já, ég hef auðvitað lesið töluvert mikið um þessi mál, en þetta byggist fyrst og fremst á tvennu, annars vegar heilbrigðri skynsemi og hins vegar reynslusögum fólks. Ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður hafi, eins og ég, heyrt ótal reynslusögur fólks, hvort sem það er nákomið eða einhverjir sem hafa haft samband við mann sem þingmann eða maður hittir í þessu starfi. Þær reynslusögur eru margar og fyrir utan það hversu erfitt þetta að sjálfsögðu er fyrir þá sem ýmist lenda í því sjálfir eða eru að reyna að aðstoða ættingja, þá finnst mér standa þar upp úr mikilvægi þess að hægt sé að grípa inn í og hjálpa fólki. Þegar það hefur tekist og menn hafa fengið hjálpina og hún hefur skilað árangri þá eru allir ánægðir með það inngrip, þá frelsisskerðingu, eins og menn myndu kannski kalla það miðað við þetta frumvarp.

Að tala um að það felist í því fordómar að tala illa um eiturlyf finnst mér býsna langt seilst, herra forseti. Í því felast engir fordómar. Fólk lendir í fíkn. Það langar væntanlega engan til að verða eiturlyfjasjúklingur. En það er ekki að ástæðulausu að fíkniefnasalar reyna að verða sér úti um nýja viðskiptavini, hafa frumkvæði að því, gefa t.d. fyrsta skammtinn, leita tækifæra, jafnvel utan við skóla, til þess að nýir viðskiptavinir ánetjist fíkniefninu.