151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

lög um fjárfestingar erlendra aðila.

[13:29]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki betur en að hv. þingmaður hafi spurt hvort það væri til skoðunar hjá dómsmálaráðherra að skoða þessa löggjöf. Þess vegna svaraði ég því til að það væri ekki til skoðunar hjá dómsmálaráðherra þar sem þessi löggjöf heyrir ekki undir dómsmálaráðherra. Varðandi þessa löggjöf þá er það alveg rétt hjá hv. þingmanni að þetta er partur af þjóðaröryggismálum og verið er að vinna heildstæða stefnumótun er varðar alla þá löggjöf sem kemur til skoðunar þegar gæta þarf að þjóðaröryggi, hvað er í eigu erlendra aðila og hvað ekki og hversu vel ríkið þarf að standa sig í því að halda upplýsingum á sínu borði, eins og hv. þingmaður kemur inn á. Ég treysti því vel að það sé til skoðunar hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu ef eitthvað er í þessum lögum sem gæta þarf sérstaklega að. En ný lög og stefna um þjóðaröryggisráð er auðvitað gríðarlega mikilvægt tæki til að hafa heildarsýn yfir öll þessi mál.