151. löggjafarþing — 82. fundur,  21. apr. 2021.

sóttvarnalög.

743. mál
[17:59]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hér erum við að ræða breytingar á sóttvarnalögum. Umræðan um algjöra lokun landamæra hefur í sjálfu sér átt sér stað víða, en til þess að ráðast í slíkt yrðum við að breyta útlendingalögunum. Hér erum við sem sagt að leggja til breytingar á sóttvarnalögum og erum fyrst og fremst að bregðast við ákvörðun sem ríkisstjórnin sagðist a.m.k. vera sammála um fyrir þremur til fjórum vikum, þegar veirusmitið var miklu minna í samfélaginu en núna, en hélt svo að sér höndum og gerði ekki neitt.

Þetta er því tilraun til að ýta á stjórnvöld að breyta lögunum þannig að það verði a.m.k. hægt að framfylgja svipuðum reglum og voru lagðar til þá. Það er eiginlega býsna undarlegt í þessari umræðu að þegar það voru nokkur smit í samfélaginu taldi ríkisstjórnin, og sagðist vera fullkomlega samhljóma um það, þó að við vitum auðvitað betur, að það ætti að skylda fólk í sóttvarnahús ef það kæmi frá löndum þar sem smit væru 500 af 100.000. En nú, þegar er miklu meira um smit í samfélaginu, sem hefur kannski skapast af því að ríkisstjórnin greip ekki nógu snöggt inni í, koma þau með frumvarp þar sem allir möskvar eru stækkaðir og fiskarnir synda í gegn og gert er ráð fyrir að smitin séu 750–1.000 á hverja 100.000. Þannig að við erum með þessu frumvarpi í rauninni fyrst og fremst að þvinga ríkisstjórnina til aðgerða sem hún átti að vera búin að grípa til fyrir mörgum dögum síðan.