151. löggjafarþing — 87. fundur,  27. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[16:36]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður segir að við eigum ekki að fara gegn þjóðarviljanum og vel hægt að taka undir það. En ég velti því fyrir mér af hverju þingsályktunartillagan er sett fram með þessum hætti í stað þess að segja bara: Af hverju förum við ekki í þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort halda eigi áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið? Hefði það ekki bara verið einfaldara og skýrara? Svo fæ ég kannski að spyrja hv. þingmann: Er það ekki rétt skilið hjá mér eða er það einhver misskilningur, er Viðreisn ekki flokkur sem var stofnaður svolítið í kringum það að leiða Ísland inn í Evrópusambandið? Mig minnir að þegar flokkurinn kom fram hafi þetta verið helsta stefnumál hans. Ég fagna því, eins og ég sagði áðan í ræðu, að við fáum tækifæri til að ræða um það mikilvæga mál sem Evrópusambandið er og hvort æskilegt sé að Ísland gangi í Evrópusambandið. En er mikill áhugi í dag meðal þeirra sem styðja Viðreisn að ganga í Evrópusambandið?