Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

störf þingsins.

[13:18]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vildi vekja athygli á bókun frá bæjarstjórn Reykjanesbæjar sem var lögð fram í gær, þriðjudaginn 4. maí, þar sem bæjarstjórnin skorar á heilbrigðisráðherra að tryggja starfsemi nýrrar heilsugæslu á Suðurnesjum sem allra fyrst en ekki seinna en 1. október 2021. Undir það ritar öll bæjarstjórnin og segir að hún sé ekki tilbúin til að bíða þau 3–4 ár sem tekur að byggja nýja opinbera heilsugæslu og óljóst hvort takist að manna hana frekar en núverandi heilsugæslu á Suðurnesjum. Þá segir einnig í bókuninni, með leyfi forseta:

„Nýverið sagði HSS upp lögbundinni heilbrigðisskoðun starfsfólks Brunavarna Suðurnesja sem þarf því að leita annað.“

Sjúkraflutningamenn og slökkviliðsmenn þurfa að leita annað til að fá lögbundna læknisskoðun. Því þarf að kippa í liðinn strax. Isavia, stærsti vinnustaðurinn á svæðinu, getur ekki fengið flensusprautur og annað þarna. Nú kemur fjöldinn allur af íbúum Suðurnesja hingað á höfuðborgarsvæðið í bólusetningu. Af hverju er það? Jú, af því þeir eru skráðir hjá heilsugæslustöð á höfuðborgarsvæðinu. Við erum með lausnina fyrir framan okkur og við eigum að nýta hana. Fjölbreytt rekstrarform tryggði aukna þjónustu og svaraði eftirspurn á höfuðborgarsvæðinu. Þar tókst að manna heilsugæsluna. Af hverju mega ekki íbúar annars staðar á landinu búa við sama aðgengi að heilsugæslu og höfuðborgarbúar? Finnum lausnir sem virka og það strax.