151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

framkvæmd EES-samningsins.

764. mál
[15:42]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðisræðu. Mér fannst margt mjög gott sem kom fram í máli hans og ég er alveg hjartanlega sammála hv. þingmanni þegar hann vísar til þess. Og ég þakka hlý orð í minn garð. Við náum hins vegar aldrei fullkomnun í því að halda hagsmunum okkar á lofti, hvorki í þessu samstarfi né öðru. Við eigum að setja okkur þau markmið að gera það því að enginn gerir það fyrir okkur.

Svo vil ég líka, virðulegi forseti, þakka hv. þingmanni fyrir að minnast á 13,4%. Þegar ég hóf störf sem ráðherra utanríkismála töluðu menn með allt öðrum hætti og ég er bara mjög ánægður, burt séð frá því hvað okkur finnst um hvort ganga eigi í Evrópusambandið. Það liggur alveg fyrir að ég og hv. þingmaður erum bara ósammála um það og ég geri engar athugasemdir við það. Hins vegar erum við alla vega komin á þann stað að við eigum að tala um þetta út frá þessum staðreyndum. Það var alltaf fullyrt hér að þetta væru allt að því 90%. Að halda því síðan fram að þessi 13,4% hafi miklu meira vægi en hin 80% plús — ég hef aldrei séð neina greiningu á því hvaða lög og reglur og því síður gerðir eru mikilvægari en aðrar eða hafa meira vægi. Það liggur bara fyrir að ef við færum inn í Evrópusambandið þyrftum við að taka upp miklu fleiri gerðir en við gerum núna. Þar er mjög stór munur á.

Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna, sem mér fannst vera góð, og líka, þó að það liggi fyrir að skoðanamunur okkar er alveg skýr þegar að þessu kemur, að við séum nú farin að tala um þetta út frá þessum staðreyndum. Það skiptir miklu máli.