151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

utanríkis- og alþjóðamál.

765. mál
[16:50]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnirnar. Fyrst varðandi Palestínu, þegar kemur að fríverslunarsamningum þá er það alveg sama við hvaða ríki þeir eru gerðir, í sjálfu sér eru það ekki stjórnvöld sem nýta sér þá heldur fyrirtækin. Ég skal viðurkenna það, virðulegi forseti, að ég hef ekki séð tölur um viðskiptin og hvort þau hafa aukist í tengslum við samninginn. En ég held að ég fari rétt með að þegar kemur að UNRA þá eru þetta um 25 milljónir í kjarnaframlag og tvö stöðugildi, svona um 60 milljónir, en það er með öllum fyrirvörum.

Varðandi Rússland þá liggur það alveg fyrir að við höfum tekið þátt í aðgerðum með öðrum vestrænum ríkjum til að mótmæla framferði Rússa. En það er ekkert leyndarmál að á sama tíma höfum við gert ýmislegt til að auka viðskiptin milli landanna. Þegar ég fór í heimsókn til Moskvu, í boði Sergeis Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, þá fór með mér viðskiptasendinefnd og m.a. komum við á fót íslensk-rússneska viðskiptaráðinu og viðskipti hafa aukist á milli Íslands og Rússlands. Við eigum mjög náið samstarf við Rússa í Norðurskautsráðinu. Það ráð var stofnað með þeim formerkjum að vera ekki að taka fyrir hörð öryggismál og önnur deilumál sem eru annars staðar á milli norðurskautsríkjanna heldur að einbeita sér fyrst og fremst að norðurskautsmálum. Þetta er algerlega í samræmi við það sem við sjáum hjá þeim löndum sem taka þátt í þessum sameiginlegu aðgerðum. Það er rétt hjá hv. þingmanni að þeir settu á okkur viðskiptabann, á mikilvægar vörur frá okkur, og ég hef ýtt á eftir því að þeir sýni sanngirni af því að þetta kemur mjög hart niður á okkur en sú málaleitan hefur fram til þessa ekki borið árangur.