151. löggjafarþing — 92. fundur,  10. maí 2021.

staða sjávarútvegsins.

[13:14]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Já, ákallið er skýrt frá almenningi. Ákallið er um það að láta ekki sjávarútveginn verða út undan í þessu. Það er það sem er hættulegt. Í greinargerð með frumvarpi forsætisráðherra stendur skýrt, í hennar eigin frumvarpi: Auðlindaákvæðið breytir engu, breytir akkúrat engu. Það er þessi sýndarmennska sem ég er að tala um þegar verið er að setja fram auðlindaákvæði sem ekkert bit er í. Ég spyr um réttlætingu fyrir VG að vera í þessu ríkisstjórnarsamstarfi með Sjálfstæðisflokknum og Framsókn þegar sæti við borðsendann átti raunverulega skipta máli. Ég er þeirrar skoðunar og undirstrika það að við þurfum að tryggja gegnsæi, tillögu um dreifða eignaraðild. Við þurfum að tryggja tímabindinguna þannig að þjóðin hafi ótvírætt forræði yfir auðlindinni, ekki afhenda hana með einhverjum loðnum hætti til til sjávarútvegsins til lengri tíma. Ég er þeirrar skoðunar að auðlindaákvæðið sem núna liggur fyrir gefi íslenskum almenningi lítið sem ekkert, það hróflar ekki við neinu eins og hæstv. forsætisráðherra segir sjálf í greinargerðinni. (Forseti hringir.)

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hún sé tilbúin til þess að leggja pólitískan trúverðugleika sinn (Forseti hringir.) að veði og horfast í augu við þjóðina og fullyrða að það auðlindaákvæði sem við erum (Forseti hringir.) að ræða um tryggi rétt þjóðarinnar. Þetta er alvörumál, herra forseti.

(Forseti (SJS): Það eru þingsköpin og ræðutíminn líka.)