151. löggjafarþing — 93. fundur,  11. maí 2021.

auknar rannsóknir á þremur nytjastofnum í sjó við landið.

[14:01]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Auðlindanýting þarf auðvitað að byggja á sem bestri vísindalegri þekkingu og einnig því að þekking þeirra sem hafa nýtt auðlindina í áranna rás, sjómanna, sé nýtt. Veiðistýring staðbundinna tegunda þarf því alltaf að byggja á öflugum grunnrannsóknum á mismunandi tegundum, hvort sem um ræðir hrognkelsi, sæbjúgu, ígulker eða humar. Vissulega vakti það upp spurningar um áreiðanleika ráðgjafar Hafró og á hvaða grunni ráðgjöfin væri byggð þegar ráðgjöfin fyrir veiðiárið í ár hækkaði um 74% á milli ára en á síðasta ári voru veiðar stöðvaðar í bullandi veiði þegar veiðar norðvestanlands voru rétt að byrja. Rannsóknir sem byggst hafa á togararalli vekja því miklar efasemdir einar og sér. Horfa þarf til öflugra rannsókna á grunnslóð. Sjávarlíftæknifyrirtækið Biopol á Skagaströnd hefur stundað rannsóknir á hrognkelsum í samstarfi við sjómenn og Hafró frá árinu 2008. Mikilvægt er að nýta sem best þær rannsóknir og þá vísindalega þekkingu sem þar hefur byggst upp. Nýting og veiði á sæbjúgum og ígulkerjum á eftir að aukast og ásókn í enn frekari nýtingu þessara tegunda mun kalla á miklum mun meiri rannsóknir allt í kringum landið. Uppbygging fyrirtækja í þessum greinum kallar á staðbundna veiðistýringu sem byggð er á svæðisbundnum rannsóknum.

Miklar áhyggjur hafa verið af ástandi humarstofnsins síðustu ár og þar hefur verið kallað eftir enn frekari rannsóknum á lélegri nýliðun humars og áhrifum öflugra togveiðarfæra sem fara illa með botninn og humarholurnar. Aukinn smáhumar í afla nú gefur þó von um að nýliðun sé eitthvað að aukast en áhugavert er að fylgjast með tilraunaveiðum sem eru nú út af Breiðafirði með humargildrum á svæðum þar sem slíkar veiðar hafa ekki verið stundaðar áður. Vera má að alls kyns gildrur verði meðal þeirra veiðarfæra sem eiga eftir að taka meira pláss í fjölbreyttum veiðarfærum þegar fram líða stundir.