151. löggjafarþing — 94. fundur,  11. maí 2021.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru o.fl.

769. mál
[14:48]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, lögum um viðspyrnustyrki og lögum um tekjuskatt. Eins og kemur fram í nefndarálitinu fékk nefndin á sinn fund fulltrúa frá fjármálaráðuneytinu, Skattinum, Samtökum atvinnulífsins og Alþýðusambandi Íslands. Auk þess bárust nokkrar umsagnir. Umsagnarfrestur var óvenjustuttur, eins og þingmenn þekkja.

Frumvarpið er liður í aðgerðum stjórnvalda til að mæta fjárhagstjóni einstaklinga og lögaðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Í frumvarpinu er kveðið á um framlengingu gildistíma lokunar- og viðspyrnustyrkja. Lagt er til að hámark heildarfjárhæðar lokunarstyrkja verði hækkað í 260 millj. kr. og að rekstraraðilar sem hafi orðið fyrir 40% tekjufalli geti sótt um viðspyrnustyrk, að öðrum skilyrðum uppfylltum, og það aftur í tímann. Það er sem sagt verið að búa til nýtt þrep, 40–60% þrep.

Ég ætla síðan að vísa í skriflegt nefndarálit varðandi umfjöllun nefndarinnar en vil þó vekja athygli á því að nefndin er einhuga um að þegar fram líða stundir sé nauðsynlegt að gerð verði úttekt á þeim árangri sem þær aðgerðir sem gripið hefur verið til, og þingheimur hefur verið einhuga um, hafa skilað, að þær verði metnar og skýrsla þess efnis verði kynnt þinginu. Um það fjöllum við kannski síðar. Ég vil þó benda á að það er ein breytingartillaga sem nefndin flytur og hún varðar þinglýsingar þar sem nefndinni barst ábending um að hluti þeirra kröfuhafa sem tóku þátt í samstilltum aðgerðum um að fresta greiðslum á skuldum einstaklinga og fyrirtækja muni ekki ná að þinglýsa viðaukum sem gerðir voru fyrir þann tímaramma sem var í gildi, þ.e. 16. maí, og í samráði við dómsmálaráðuneytið leggur nefndin til að frestur til að þinglýsa viðaukanum samkvæmt ákvæðinu verði framlengdur til loka þessa árs.

Síðan eru tæknilegar breytingar lagðar til. Hv. þingmenn Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Smári McCarthy skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara sem ég geri ráð fyrir að þau geri grein fyrir. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Undir nefndarálitið rita ásamt þeim sem hér stendur, Óla Birni Kárasyni, hv. þingmenn Jón Steindór Valdimarsson, Brynjar Níelsson, Bryndís Haraldsdóttir, Hjálmar Bogi Hafliðason, Ólafur Þór Gunnarsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Smári McCarthy, þau tvö síðastnefndu með fyrirvara.

Hæstv. forseti. Ég kemst hins vegar ekki hjá því að þakka nefndarmönnum alveg sérstaklega fyrir hvernig brugðist var við og hvernig unnið var í þessu máli. Það var gert með snaggaralegum hætti en ég hygg að við höfum líka um leið náð að vanda til verka.