151. löggjafarþing — 95. fundur,  11. maí 2021.

íslensk landshöfuðlén.

9. mál
[15:38]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ég ætla að hafa örfá orð um þetta annars ágæta mál sem fjallar um íslensk landshöfuðlén. Eins og mörg okkar á Íslandi kannski vita ekki er það einkafyrirtæki, fyrirtæki í einkaeigu, sem fer með landshöfuðlénið .is. Það æxlaðist nú ekki þannig að löggjafinn tæki meðvitaða ákvörðun um að þannig fyrirkomulag væri best heldur gerðist þetta einhvern veginn bara í gegnum röð alls konar atvika á sínum tíma þegar internetnotkun var að taka stakkaskiptum á Íslandi snemma á þessari öld. Þess vegna finnst mér gott að sjá þarna forkaupsrétt í frumvarpinu sem felur í sér að ef ISNIC, það ágæta fyrirtæki, er einhvern tíma selt eða meiri hluti þess þá hafi ríkið forkaupsrétt á því og hafi færi á því að ná valdi yfir þessu léni og ná því til sín. Það er nú bara þannig, ef við tölum íslensku, að landshöfuðlénið .is er ekki einkamál einhvers. Nú er tæknimaður sem stendur hér sem þekkir mætavel tæknilegu skýringarnar á bak við það hvað .is er, hvað DNS-færsla er, hvað DNS-netþjónn er og hvernig fyrirkomulaginu er tæknilega hagað. Það breytir því ekki að .is er í mannlegu samfélagi tákn um Ísland. Það er raunveruleikinn sem við búum við og mér finnst því eðlilegt að ríkið hafi í það minnsta eitthvað að segja um það hvernig fyrirkomulaginu sé háttað í kringum þetta .is-lén.

Að því sögðu vil ég þó einnig segja að ég get ímyndað mér mjög margar aðstæður þar sem ISNIC, sem heldur núna utan um þetta lén, hefði getað brugðist verr við eða hagað skráningu verr en raunin er. Að mörgu leyti má reyndar segja að ISNIC hafi sýnt mikla ábyrgð þegar kemur að því hvernig það hagar skráningu. Það eru ein mistök sem ég man til þess að ISNIC hafi gert, sem það síðan leiðrétti. Það snerist um það þegar hið svokallaða ríki íslams eða ISIS skráði khilafah.is lénið og hélt þar úti sínum ógeðslega áróðri. Þá var léninu lokað af ISNIC á grundvelli þess að starfsemin bryti í bága við almenn íslensk lög. Sá sem hér stóð byrjaði á því að gagnrýna þessa ákvörðun á þeim forsendum að ef afskráningin hefði átt sér stað vegna þess að .is einfaldlega þýddi ekki „islamic state“ heldur Ísland þá hefði ég ekkert við þá afskráningu að athuga, mér þætti hún málefnaleg. En það var hins vegar og er ákveðin hætta við það að ætla að fara að beita almennum lögum sem forsendu afskráningar. Hættan stafar af því að það er ansi margt bannað á Íslandi sem að mínu viti má ekki leiða af sér að afskráning eigi sér sjálfkrafa stað. Þar má nefna 95. gr. almennra hegningarlaga sem fjallar um móðgun við erlenda þjóðhöfðingja. Það var bannað að drulla hér yfir Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, eins og sá gerði sem hér stendur; á Twitter, á Facebook og í pontu. Það er bannað samkvæmt íslenskum lögum, 95. gr. laga nr. 19/1940, almennum hegningarlögum. Ég braut þessi lög. Ég gerði það viljandi, ég gerði það vitandi með fullum brotavilja og mun gera það aftur þegar ég er hættur á þingi, ítrekað, og ég mun hvetja aðra til þess og hvet hér með aðra til þess að brjóta þau lög þegar þess er þörf, vegna þess að ég tel það mikilvægt. Ef ég setti upp vef til að gagnrýna fasísku tilburðina og annan hrottaskap í þeim hræðilega forseta, Donald Trump, þá myndi ég varla una því að lénið yrði tekið í burtu út frá því að málstaðurinn þar væri brot á íslenskum hegningarlögum.

Það er nú bara þannig í mannlegu samfélagi, virðulegi forseti, að við þurfum að geta tjáð okkur þvert á vilja annarra, annars þýðir tjáningarfrelsi ekki neitt. Og þetta er ekki slagur sem mér finnst við hæfi að ISNIC þurfi að taka, enda, ISNIC til hróss, dró það þetta til baka og sagðist eftir þessa umræðu frekar vilja grundvalla afskráninguna á þeirri réttmætu ástæðu að .is þýðir einfaldlega ekki „islamic state“. Þá er þetta meira í takt við vörusvik eða eitthvað þess háttar en snertir ekki réttinn til að tjá sig eða geta tjáð sig án þess að hafa þetta tiltekna lén, landshöfuðlénið .is.

Að því sögðu, eins og ég benti þá á, þarf ekkert landshöfuðlén til þess að dreifa óhróðri eins og þeim sem var á þessari ógeðslegu síðu. Það er hægt að hýsa vefinn sinn hvar sem er. Í raun og veru er það algerlega ónýt barátta að ætla að fara að stemma stigu við hatursáróðri Ríkis íslams eða sambærilegra hryðjuverkasamtaka með því að taka niður einhver lén. Það er tapaður slagur fyrir fram, virðulegi forseti. En auðvitað snýst þetta ekki í sjálfu sér um það, þetta snýst um það hvað .is landshöfuðlénið sé, hvað það þýði og hverju fólk á von þegar það notar lénið.

Eins og kannski heyrist þá finnst mér mikilvægt að það séu einhverjar reglur í kringum þetta landshöfuðlén. En mér finnst líka mikilvægt að þær byggi ekki á geðþótta og það eitt að loka léni á grundvelli þess að það brjóti í bága við lög, býr til geðþóttavald vegna þess að það er bara svo margt bannað á Íslandi. Það er svo margt á Íslandi sem varðar tveggja ára fangelsisvist en þarf samt að vera hægt að tjá án þess að eiga á hættu að lén sé tekið niður, óháð því hvort það hindri tjáninguna sjálfa eða ekki. Íslendingar á Íslandi eiga að geta haft sinn íslenska vef og drullað yfir Donald Trump að vild. Það er bara sjálfsagður hluti af tjáningarfrelsinu að geta sagt og sýnt fullt af hlutum sem flestu fólki er mjög illa við. Mér finnst það mjög mikilvægt frelsi.

Í þessari löggjöf er einmitt tekið aðeins á því hvað eigi að gera í sambandi við lögbrot og í b-lið 11. gr. frumvarpsins er fjallað um að lögregla geti, að undangengnum dómsúrskurði, krafist þess að skráningarstofa, þýðist ISNIC, loki léni undir þeim kringumstæðum þar sem lénið er notað til að miðla ólöglegu efni eða efni sem hvetur til refsiverðrar háttsemi sem varðar við almenn hegningarlög og meint brot getur varðað fangelsisrefsingu allt að tveimur árum eða meira.

Nú eru til þau brot þar sem mér þykir eðlilegt í rannsóknarskyni eða til að forða skaða, eitthvað því um líkt, að taka niður lén, t.d. út af skipulagðri hryðjuverkastarfsemi eða skipulagðri brotastarfsemi eða barnaklámi, barnamisnotkun eða þess háttar. Þá er tveggja ára refsiramminn heldur þröngur, m.a. fellur þar undir 95. gr. hegningarlaga sem ég nefndi hér áðan í sambandi við það að drulla yfir Donald Trump og aðra fasíska hrotta. Það gleður mig þess vegna að sjá að nefndin leggur hér til að þessi refsirammi verði hækkaður upp í sex ár. Þá eru tiltekin mun alvarlegri brot en það sem ég nefndi hér um að móðga erlenda þjóðhöfðingja. Mér finnst það mun eðlilegri rammi og fagna því að nefndin hafi tekið þessum ábendingum. Auðvitað vonum við öll að aldrei komi til þess að þessum lögum verði beitt. Þetta er jú ákvæði sem maður vill sjaldan sjá að sé tilefni til þess að beita. En ef þessi refsirammi hefði haldist í tveimur árum þá er engin spurning um það í mínum huga að fyrr eða síðar yrði því beitt og það hefði mögulega getað verið að ósekju og að mínu viti á það ekkert að vera mögulega að ósekju. Það á bara að vera skýrt að það sé ærið tilefni til og auðvitað að úrræðið nái tilsettu markmiði.

Það var aðallega þetta sem ég hafði að athuga við frumvarpið hér fyrr þegar við vorum að ræða það. Ég verð þó aðeins að nefna eitt, bara svona til að hafa nefnt það, en það er lokamálsliður 12. gr. frumvarpsins. Þar segir, með leyfi forseta: „Nafn á léni þarf enn fremur að samræmast alþjóðlegum skuldbindingum Íslands og ekki vera til þess fallið að skaða orðspor landsins að öðru leyti.“

Nú get ég ekkert fullyrt fyrir hönd lögreglunnar eða ISNIC eða íslenskra yfirvalda hvort allt sem þeim sem hér stendur dettur í hug að setja á íslenska vefsíðu sé til þess fallið að styrkja orðspor landsins eða skaða það ekki. Vel má vera t.d. að fyrrnefnd orðræða mín um fasíska hrottann Donald Trump skaði orðspor Íslands að mati einhverra. Þegar ég les þetta ákvæði þá finnst mér ekki í fljótu bragði skýrt hvað átt er við. En aftur á móti les ég það miklu meira í samhengi við t.d. það að hryðjuverkasamtök eins og Ríki íslams skrái hér .is lén og skaði þannig orðstír Íslands og lénsins. Að því leyti skil ég þessa klausu í því samhengi. Ég hef ekki miklar áhyggjur af þessu eða reyndar ekki neinar, ef ég segi alveg eins og er. Það væri reyndar þvert á móti frekar forvitnilegt að sjá hvernig sú umræða væri ef eitthvað væri sett á vef sem væri talið skaða orðspor landsins en brýtur ekki í bága við almenn hegningarlög. Þessu ákvæði yrði þá beitt til að sporna við skráningu þess léns. Það væri jafnvel forvitnilegt. En ég hygg ekki að þetta verði til vandræða en vildi hafa nefnt þetta, bara svona ef ég skyldi hafa rangt fyrir mér í því og að einn daginn verði þetta til vandræða. Þá hefur a.m.k. einn þingmaður hér staðið upp og tekið eftir því í það minnsta.

Að öðru leyti verð ég að segja að ég styð þetta mál með þeim fyrirvara að ég hef ekki lúslesið breytingartillögurnar eða skýringar um hvert einasta ákvæði eins og það stendur núna á þessum tímapunkti við meðferð málsins. Ég styð málið og þakka hv. umhverfis- og samgöngunefnd fyrir sín störf og sér í lagi fyrir að takast á við b-lið. 11. gr. frumvarpsins.