151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

skipulögð glæpastarfsemi.

[13:57]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Að undanskildum náttúruhamförum telur greiningardeild ríkislögreglustjóra skipulagða glæpastarfsemi vera alvarlegustu ógn við samfélag og einstaklinga á Íslandi. Þetta eru stór orð en þetta er mat ríkislögreglustjóra sem rakið er í skýrslu frá árinu 2019. Það er um leið mat lögreglunnar að hér sé starfsemi sem er skipulögð í eðli sínu sem búi bæði yfir umtalsverðum styrk og fjármagni og eftir því sem starfsemi þessara aðila styrkist og eflist verður erfiðara fyrir lögregluna að sporna gegn henni. Það þarf að ná henni áður en hún nær að festa rætur. Þess vegna er ábyrgðarlaust, vil ég leyfa mér að segja, af hálfu stjórnvalda að það gerist ár eftir ár að út komi skýrslur með niðurstöðum á borð við þessar án þess að brugðist sé við í samræmi við alvöru málsins. Það virðist reyndar vera gegnumgangandi í nálgun stjórnvalda hvað varðar innviði og þær stofnanir sem eiga að verja almenning með því að sinna eftirliti. Í skýrslu greiningardeildarinnar frá 2019 kemur t.d. fram að geta íslensku lögreglunnar til að sporna gegn skipulagðri brotastarfsemi teljist að þeirra mati lítil. Ég held að hér megi reyndar ganga svo langt að segja að það sé vanræksla stjórnvalda gagnvart almenningi að gera ekki betur. Lögreglan verður að hafa burði til að nálgast mál þannig að hægt sé að koma í veg fyrir starfsemi sem þessa í stað þess að vera að bregðast við einstaka máli sem ratar upp á yfirborðið. Þetta eru rannsóknir sem krefjast tíma, þær eru kostnaðarsamar, þær fara yfir landamæri, þær krefjast þekkingar. Þetta er nákvæmnis- og þolinmæðisvinna.

Virðulegi forseti. Hér blasir við okkur ákveðin mynd. Myndin er sú að Sjálfstæðisflokkurinn hefur árum saman farið með þetta ráðuneyti og skilaboðin frá ríkislögreglustjóra um stöðu mála gætu ekki verið skýrari. Það vantar verulega upp á það að stjórnvöld standi með almenningi að þessu leyti, tryggi að lögregla sé fjármögnuð í samræmi við þörf og hafi mannafla (Forseti hringir.) í samræmi við þörf. Það er eins og það gleymist stundum hjá ríkisstjórninni, þegar verið er að tala um innviði og uppbyggingu (Forseti hringir.) þeirra, að þar er lögreglan auðvitað fyrst, að verja öryggi borgaranna.