151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[16:02]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Andra Thorssyni fyrir svarið. Ég er eiginlega að mörgu leyti sammála honum, mér finnst það sem hann er að leggja fram mun skárra en það sem á að fara í gegn. Ég er sammála honum í því. Það sem ég myndi vilja fá að vita er hvort hann sé ekki sammála því að einhvern veginn verði að kortleggja eftir eitt og hálft til tvö ár hvaða áhrif þetta hefur. Það sem ég hef áhyggjur af er hvaða áhrif það hefur á fréttaflutning að ríkið sé að styrkja. Hefur það þau áhrif að viðkomandi fréttastofa hugsi sig tvisvar um með að gagnrýna ríkisstjórnina á hverjum tíma, hafi tilfinningu um að verið sé að slá á puttana af þeim sem eru farnir að fæða þá á einhverju þótt lítið sé? Síðan hef ég líka áhyggjur af þessari upphæð vegna þess að þetta eru það margir litlir fjölmiðlar. Ég er algjörlega sammála því að finna þarf leið til að styrkja þá. En hvað segir hann með RÚV t.d.? Finnst honum eðlilegt að RÚV ætti bara algerlega að fara af auglýsingamarkaði og að við hefðum átt að taka RÚV af honum, að þeir myndu bara þurfa að aðlaga sig fyrir utan auglýsingamarkaðinn? Ég efast ekki um að þeir geti spjarað sig vel. Þá væru þeir bara að einbeita sér að því sem þeir eru góðir í. Meira að segja ættu þeir eiginlega að sleppa þessari amerísku afþreyingu og öðru en einbeita sér að íslensku efni og öðru þvílíku og góðum fréttaflutningi en láta aðra um þennan afþreyingariðnað. Líka það að við eigum að einbeita okkur að því að fara í slag við þessa risa eins og Netflix og Viaplay og skattleggja þá. Við eigum bara að einbeita okkur að því. Mér finnst við einhvern veginn vera að byrja á röngum enda.