Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[16:04]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Guðmundur Andri Thorsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst ákaflega gott að heyra að hv. þingmaður sé svona jákvæður í garð þessarar breytingartillögu og hallist að mínu máli. Þá er eiginlega verkefni mitt að fá á mitt mál afganginn af þinginu og þá verður þessi breytingartillaga okkar vonandi samþykkt. Jú, vissulega þarf að kortleggja þetta, eins og hv. þingmaður segir, eftir kannski tvö ár eða fara yfir þetta og sjá hvað hefur gefist vel og hvað hefur gefist miður. Það er sjálfsagt að gera það. Það finnst mér vera partur af því að svona sjóður sé lífvænlegur og starfi eftir markmiðum sínum. Ég óttast ekki að það að styrkir komi úr ríkissjóði og séu úr almannasjóðum, séu skattfé, verði til þess að fjölmiðlar verði óþarflega þægir og óþarflega hlífisamir gagnvart ríkjandi stjórnvöldum hverju sinni. Eins og ég sagði áðan í ræðu minni er það að vera fjölmiðlamaður ákveðið fag, það er ákveðin lífsskoðun að vera fjölmiðlamaður, að vera fréttamaður. Fréttamaður dregur allt í efa, fréttamaður trúir aldrei neinum stjórnmálamönnum, eða ætti alla vega ekki að gera það, og fréttamaður þarf alltaf að grafast sjálfur fyrir um alla hluti. Það er þannig fréttamennska og það eru þannig fjölmiðlar sem við viljum styrkja vegna þess að almenningur þarf á slíkri fjölmiðlun að halda. RÚV, auglýsingamarkaður, ég á fjórar sekúndur eftir, þrjár tvær, eina. Ég bara get ekki svarað því. Það er of stór spurning. Það er efni í sérstaka aðra umræðu hvert slíkar auglýsingatekjur (Forseti hringir.) kynnu að renna og þar fram eftir götunum og hvaða áhrif það hefði líka á Ríkisútvarpið. Það er önnur umræða.