151. löggjafarþing — 100. fundur,  25. maí 2021.

aðför Samherja að stofnunum samfélagsins.

[13:09]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á framgöngu Samherja. Ég held að við hv. þingmaður séum algjörlega sammála um að þessi framganga er auðvitað algerlega óboðleg, óeðlileg og á ekki að líðast í lýðræðissamfélagi. Þannig er það. Við þurfum að átta okkur á því að aðilar sem eru í forystu fyrir jafn stórt fyrirtæki og þarna er um að ræða bera ábyrgð gagnvart samfélagi sínu og þetta er ekki að bera ábyrgð gagnvart samfélaginu. Svona gera menn einfaldlega ekki.

Hvað getum við gert og hvað hefur verið gert? Ég held að þegar við lesum um atburðarás eins og þá sem við höfum verið að lesa hvað varðar tilraunir til að hafa áhrif á kjör í Blaðamannafélagi Íslands þá sé full ástæða til þess að skoða stöðu þeirrar stéttar í fjölmiðlalögum. Ég minni á það að þegar fjölmiðlalögin voru samþykkt á sínum tíma, 2011, var gert ráð fyrir heildarendurskoðun þeirra innan tiltekins tíma og þar voru gerðar ákveðnar breytingar hvað varðar réttarstöðu blaðamanna. En hlutirnir breytast hratt. Annað atriði sem ég hef nefnt eru skoðanaauglýsingar, sem eru þá ekki auglýsingar stjórnmálaflokka því að um flokkana gilda aðrar reglur heldur auglýsingar þar sem margháttaðir hagsmunaaðilar nýta þann miðil til að koma viðhorfum á framfæri. Það er því mjög margt sem ber að skoða en ég held að við megum heldur ekki gleyma því hvað við höfum verið að gera því að við höfum verið að stíga mjög mikilvæg skref; lög um vernd uppljóstrara, lög um varnir gegn hagsmunaárekstrum, ný upplýsingalög. Allar miða þessar breytingar að því að efla gagnsæi og gagnsæi er undirstaða þess að við séum með öflugt lýðræðissamfélag.

Hvað varðar auðlindaákvæði í stjórnarskrá þá er það mál núna til meðferðar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Ég hef litið svo á að orðalag (Forseti hringir.) þessa ákvæðis sé skýrt, þ.e. að heimildirnar verði ekki afhentar með varanlegum hætti sem merkir þá að þær eru tímabundnar eða uppsegjanlegar. En mér finnst (Forseti hringir.) bara eðlilegt að þingið núna taki þá umræðu á réttum vettvangi sem er í nefndinni.