151. löggjafarþing — 100. fundur,  25. maí 2021.

traust á stjórnmálum og stjórnsýslu.

[14:13]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Við erum að tala um traust á stjórnmálum og stjórnsýslu. Það sem skiptir mestu máli í því sambandi er auðvitað að stjórnmálamenn standi við þá stefnu sem þeir setja fram og þá sérstaklega það sem þeir setja helst á oddinn. Þarna er ég ekki að tala um minni háttar mál og að stjórnmálaleiðtogar kjósi að gefa eftir í stjórnarmyndunarviðræðum. Frægasta dæmið um þetta er 180° viðsnúningur Vinstri grænna eftir kosningarnar 2009 þegar þeir, á einni nóttu, þvert á yfirlýsta stefnu og í fullkominni andstöðu við langflesta kjósendur sína, snerust frá því að vera harðir á móti Evrópusambandsaðild í það að sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Traust á stjórnmálum byggist einnig upp með því að pólitísk stjórnvöld útskýri illskiljanlega hluti sem þau framkvæma fyrir fólki á mannamáli. Það myndi þannig auka traust á stjórnmálum ef hæstv. heilbrigðisráðherra gæti útskýrt fyrir okkur af hverju fólk á biðlistum eftir liðskiptaaðgerðum er fremur sent til útlanda í rándýrar aðgerðir á einkastofum, í stað þess að láta gera aðgerðirnar innan lands, sem er mun ódýrara. Það myndi einnig auka traust á stjórnmálum ef hæstv. félagsmálaráðherra gæti viðurkennt að frumvarp hans um málefni innflytjenda valdi stórauknum kostnaði ríkissjóðs í stað þess að halda öðru fram. Það myndi alveg örugglega auka traust á stjórnmálum ef hæstv. dómsmálaráðherra gæti útskýrt fyrir fólki hvað stjórnvöld eru raunverulega að gera á vettvangi löggæslumála til að stemma stigu við uppgangi skipulagðrar glæpastarfsemi. Það væri gott fyrir traustið ef hæstv. heilbrigðisráðherra gæti útskýrt af hverju betra sé að senda leghálssýni erlendis sem bæði eykur hættu á mistökum og er kostnaðarsamara en að gera rannsóknirnar innan lands. Loks myndi klárlega auka traust á stjórnmálum ef hæstv. heilbrigðisráðherra gæti útskýrt það fyrir landsmönnum öllum af hverju hún leggur fram frumvarp sem stóreykur augljóslega fíkniefnavandann, sem er þó ærinn fyrir, í stað þess að efla forvarnir og meðferðarstarf, sem eru viðurkenndar aðferðir til að halda eiturlyfjavandanum í skefjum. (Forseti hringir.) Að mínu mati væru útskýringar sem þessar best til þess fallnar að auka traust á stjórnmálum.