151. löggjafarþing — 100. fundur,  25. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[14:41]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Eins og komið hefur fram í umræðunni gerðum við fyrirvara við málið, ég og hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir. Þrátt fyrir það teljum við, samkvæmt bæði þeim umsögnum sem allsherjar- og menntamálanefnd bárust og gestakomum og samtali í nefndinni þar um, að nauðsynlegt sé að gera þessar breytingar, þ.e. með því sólarlagsákvæði sem hér er undir. Á meðan sé hægt að fara yfir það sem þarf að gera, hið skattalega umhverfi og annað slíkt sem hér hefur verið rakið, bæði er varðar efnisveitur og annað slíkt.

Það hefur líka verið erfitt hjá fjórða valdinu sem ber að halda uppi gagnrýni og eftirliti með okkur, m.a. hér, þannig að ég tel að þetta sé nauðsynleg aðgerð. Hún er ekki endilega nákvæmlega eins og við, hvert og eitt okkar, hefðum viljað hafa hana. Engu að síður er þetta stuðningur fyrir yfirstandandi rekstrarár og árið í fyrra sem ég tel að sé nauðsynlegur. (Forseti hringir.) Ég treysti því auðvitað að annaðhvort nái núverandi ríkisstjórn að klára þetta á þeim mánuðum sem eftir eru eða þá að ný ríkisstjórn taki málið upp (Forseti hringir.) og taki vel utan um umhverfi fjölmiðla.