151. löggjafarþing — 100. fundur,  25. maí 2021.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

768. mál
[15:57]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki hvort ég hafi miklu að bæta við það sem ég sagði hér áðan. Kannski er ágætt að taka það fram að engar umsagnir við þetta frumvarp bárust inn í nefndina. Við töldum að svo væri vegna þess að fólk þekkir þetta úrræði vel, það hefur verið til umræðu lengi og flestir hafa verið mjög jákvæðir. Aftur á móti bárust umsagnir í samráðsgáttina. Þeir aðilar sem gáfu umsagnir þar voru annars vegar að lýsa mikilli ánægju með frumvarpið og svo voru umsagnir frá sveitarfélögunum, ábending varðandi tekjutap þeirra af því að þarna væri að fara fram eitthvað sem væri gefinn skattafsláttur á. En ég heyri hvað hv. þingmaður segir og mér finnst alveg ástæða til að finna rök með og á móti því. Ég held engu að síður að hér sé um mjög mikilvægt mál að ræða sem nýtist þorra allra heimila í landinu. Ef einhverjir eru að detta um einhverja glufu þá finnst mér full ástæða til að skoða það og kanna hvort hægt verði að bregðast við því. En ég ítreka að ég held að við megum samt ekki láta það valda því að þorri heimila fá ekki þá bót sem hér um ræðir. Ég held að við hv. þingmaður getum verið sammála um það.