151. löggjafarþing — 102. fundur,  27. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[15:33]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta hjálpar mér aðeins betur að skilja gagnrýnina. Ég get tekið undir þetta vegna þess að ég var að gagnrýna svolítið mikið hérna 2019, 2020, þegar við sáum fram á það að við værum að fara inn í efnahagslægð, alveg óháð einhverjum heimsfaraldri sem við sáum ekki fram á þeim tíma, að enn þá væri öll áherslan hjá ríkisstjórninni á að reyna að greiða niður skuldir og spara og koma í veg fyrir að verið væri að nýta kraft ríkisins til að byggja undir hagkerfið. Svo fór sem fór. Ég er þeirrar skoðunar að ríkið sé ekki hlutlaus aðili á markaði. Það eru sumir sem halda því fram. Ég hef svo sem ekki heyrt hv. þingmann tala á þann veg. En ríkið, verandi í fyrsta lagi risastór aðili og atvinnuveitandi hér á landi en líka stór kaupandi að alls konar vörum og þjónustu, er ekki hlutlaus aðili á markaði. Það er mikilvægt að við beitum þunga ríkisins til þess að byggja upp einmitt þegar hagsveiflan er á niðurleið eins og hún var byrjuð að fara 2019. Þannig að mér heyrist við vera á svipaðri línu með það. Þetta passar líka inn í alla nýsköpunarumræðuna þar sem við horfum upp á að ein helsta stofnunin í nýsköpunarumhverfi Íslands er lögð niður í miðjum heimsfaraldri þrátt fyrir að það væri ekkert plan um hvað ætti að koma í staðinn. Núna held ég að það séu bara örfáir dagar í að Nýsköpunarmiðstöð eigi að verða formlega lögð niður. Ég á enn þá eftir að sjá hvað tekur við, einhver betri plön. (Forseti hringir.) En eftir stendur að við erum enn þá á niðurleið í hagsveiflunni (Forseti hringir.) og það er enn þá ekki verið að spyrna neitt á móti.