151. löggjafarþing — 102. fundur,  27. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[16:07]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Forseti. Ég held að ég nái ekki að fara yfir allt sem ég átti eftir í nefndarálitinu en ég ætla að reyna að renna yfir helstu málefnasviðin sem ég átti eftir. Ég ætlaði að fjalla um auknar fjárheimildir til málefnasviða sem farið er yfir í áliti meiri hluta fjárlaganefndar og útskýra aðeins hvar áhugaverðar breytingar eru.

Undir málefnasviðinu Alþingi og eftirlitsstofnanir þess er breytingin neikvæð. Fjárheimildir jukust þó innan tímabilsins vegna framkvæmda við nýtt húsnæði fyrir nefndasvið sem kemur í stað húsnæðis sem Alþingi leigir í dag. Mjög hagkvæm framkvæmd þar á ferð. Það sem er hins vegar undarlegt er að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er markmið um eflingu Alþingis. Það hefur þýtt fleira starfsfólk á nefndasvið, sem er mjög gott og enn vantar fólk. Það vantar enn fleira starfsfólk fyrir þingflokka, það er mjög nauðsynlegt. En það sem ég skil ekki er hvernig það getur leitt til þess að fjárheimildir dragist saman um 4%. Enn síður ef tekið er tillit til stofnana Alþingis, Ríkisendurskoðunar og umboðsmanns Alþingis sem hafa ítrekað bent á skort á fjárheimildum til þess að sinna frumkvæðisrannsóknum.

Ég ætla að stökkva yfir í sviðið Nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar. Þar er 33% aukning á tímabilinu, tæpir 5 milljarðar. Í nefndaráliti meiri hlutans er hins vegar vakin athygli á því að hingað til hafa framlög hækkað um 93% en sú aukning er tímabundið framlag til nýsköpunar, endurgreiðslur vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar, og fellur niður árin 2023 og 2024, eða um það leyti sem á að fara að skera niður í ríkisfjármálum samkvæmt þessari fjármálaáætlun. Stefna ríkisstjórnarinnar rennur í raun út þá. Aukningu á framlögum vegna stofnunar sprota- og nýsköpunarsjóðs Kríu lýkur líka 2024. Hækkunin sem þá stendur eftir virðist aðallega vera vegna rammaáætlana ESB um menntun, rannsóknir og tækniþróun. Það er aukning þessarar ríkisstjórnar þegar allt kemur til alls í málefnum nýsköpunar fyrir utan þetta tímabundna verkefni.

Undir sveitarfélögum og byggðamálum er 4% samdráttur. Hér er ekkert að gerast, engar áætlanir um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, byggðaáætlun eða sóknaráætlanir. Minna en ekkert þegar allt kemur til alls.

Undir málefnasviði um réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýslu dómsmála er 15% aukning, 2,1 milljarður. Þetta er aukning vegna breytinga á kirkjujarðasamkomulaginu. Það útskýrir tæplega helminginn af aukningunni. Hinn helmingurinn er óútskýrður í fyrri fjármálaáætlunum en virðist vera vegna málaflokks útlendingamála sem hækkaði mikið á milli áranna 2017 og 2018. Umsóknum um hæli fjölgaði mikið milli áranna 2015 og 2016. Árið 2015 voru 323 umsóknir eða um 27 umsóknir á mánuði. Árið 2016 höfðu umsóknirnar þrefaldast, í 977. Flestar urðu þær svo árið 2017, eða 1.096, eða 91 umsókn að meðaltali á mánuði. Árið 2020 voru svo 654 umsóknir. Hér er staðan einfaldlega sú að ríkisstjórnin leggur í mjög kostnaðarsamar rannsóknir á því hvernig hægt er að senda fólk úr landi en af því að sú leið er valin er engin önnur leið en að fara út í þann kostnað því þar undir liggur flóttamannasamningur Sameinuðu þjóðanna, sem gerir þetta nauðsynlegt.

Flóttamannavandinn er ekki auðleysanlegur, til þess þarf samstillt átak margra þjóða sem láta sér það duga í dag að láta örfáar þjóðir glíma við vandann. Það mun kosta pening, óhjákvæmilega, en það er miklu betra að nýta þann pening í að hjálpa fólki, í staðinn fyrir að reyna að komast að því hvernig eigi að senda það beint til að búa á ruslahaugum í Grikklandi. Flóttafólk er í gríðarlegum vanda. Grikkland er í gríðarlegum vanda. Við getum gert miklu betur.

Á málefnasviði landbúnaðarins er 4% samdráttur, upp á 800 milljónir. Í fjármálaáætlun 2021 segir: Lækkun framlaga til búvörusamninga. Hér er bara engin stefna í gangi.

Sjávarútvegur og fiskeldi: 5% samdráttur, 315 milljónir. Engin umfjöllun um breytingar á þessu málefnasviði í fjármálaáætlun 2022–2026. Ekkert að gerast, ekki neitt.

Önnur skólastig og stjórnsýsla mennta- og menningarmála: 6% samdráttur, 350 milljónir eða svo. Hér er lögð aukin áhersla á að bæta hæfni nemenda í íslensku, stærðfræði og náttúrufræði ásamt því að bæta stöðu nemenda með annað móðurmál en íslensku. Það er samt samdráttur upp á 350 milljónir. Ég skil bara ekki neitt, ég fatta ekki hvernig þetta fer saman. Það eru einhverjir töfrar þarna í gangi.

Sjúkrahúsþjónusta. Þar er 37% aukning, 36 milljarðar kr. Helsta útgjaldabreyting málefnasviðsins snýr að framkvæmdum við nýjan Landspítala. Á árunum 2019–2023 er áætlað að fjárheimildir til Landspítalans minnki um tæpa 5 milljarða kr. Á sama tíma eru fjárframlög til Sjúkrahússins á Akureyri nánast óbreytt og óskipt framlag til reksturs sjúkrahúsa hækkar um 8 milljarða kr. Hér skal hafa það á hreinu að nánast ekkert gagnsæi er í rekstri þessa málaflokks. Fjárlaganefnd fær miklu betri gögn um allan rekstur heilbrigðiskerfisins frá Landspítalanum en nefndin fær frá ráðuneytinu, samt mjög vel matreidd gögn. Fjárveitingarvaldið hefur í rauninni enga yfirsýn yfir málefnasvið heilbrigðismála, hvorki sjúkrahúsþjónustu né hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu. Ofan í þetta fáum við svo fréttir af Sjúkratryggingum Íslands þar sem gögn sýna að einstaka stofulæknar fá allt að 700 þúsund kr. í greiðslu daglega, að meðaltali. Upphæðirnar líta út fyrir að vera háar en forstjóri Sjúkratrygginga segir að engar kostnaðargreiningar liggi þarna á bak við. Kannski er þetta fullkomlega eðlilegt þegar tekið er tillit til alls kostnaðar við tæki og aðstöðu en það væri lágmark að kynna fjárveitingavaldinu þessa stöðu.

Það hefur verið vel skjalfest í svörum við skriflegum fyrirspurnum um lögbundin verkefni framkvæmdavaldsins að enginn hefur hugmynd um hvað þau kosta. Fjárheimildir næsta árs eru uppreiknaðar frá fyrra ári með einstaka tilfærslum vegna tímabundinna verkefna. Enginn hefur hugmynd um af hverju kostnaður vegna heilbrigðiskerfisins verður um 300 milljarðar kr. árið 2023. Ef einhver veit það, þá fær fjárveitingavaldið a.m.k. ekki að vita það þó eftir því sé leitað.

Hér bera allir ábyrgð. Stjórnsýslan fyrir að vera ekki nægilega gagnsæ í fjármálum. Ráðherra fyrir að gera ekkert í því og Alþingi fyrir að hafna ekki óútskýrðum fjárheimildum. Í því pólitíska meirihlutakerfi sem við búum við í dag skrifast sú ábyrgð svo skuldlaust á ríkisstjórnarflokkana. Það er ríkisstjórnin sem ber ábyrgð á því að þetta sé í lagi. Við hin reynum að spyrja og fá upplýsingar og fáum engin svör.

Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta. Það er stórt mál og mikið verið unnið í því máli í fjárlaganefnd, eða reynt að vinna í því. Meiri hlutinn hefur staðið sig þó nokkuð vel í að kalla eftir upplýsingum en fær heldur ekki svör, alla vega ekki svörin sem verið er að kalla eftir. Þar er 14% aukning, tæpir 8 milljarðar. Þetta dugar hins vegar ekki upp í þörfina í þessum málaflokki. Það hefur verið skýrt frá því í upphafi kjörtímabilsins. Þetta hefur kostnaðaráhrif á sjúkrahúsþjónustu þar sem undirfjármögnun á þessu málefnasviði býr til svokallaðan fráflæðisvanda á LSH með tilheyrandi aukakostnaði á því málefnasviði, meiri kostnaði en myndi kosta að laga það á málefnasviði hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu. Nýlega var unnin skýrsla sem átti að útskýra hvar vandinn lægi, af hverju hjúkrunarheimilin eru ítrekað rekin með halla. Niðurstaðan úr þeirri skýrslu var sú að enginn veit af hverju það er ekki stærðarhagkvæmni að reka stærri hjúkrunarheimili en minni. Í sömu skýrslu er samt sagt að ef tekið sé tillit til þess að stærri hjúkrunarheimili fái veikari einstaklinga, þá komi fram stærðarhagkvæmni. Hvoru tveggja er haldið fram, það er alveg stórkostlegt. Þversögnin er þarna. Niðurstaðan er einnig sú að sveitarfélögin borga láglaunastarfsfólki á hjúkrunarheimilum betur en ríkið og til þess að reyna að reka hjúkrunarheimilin ekki í halla er hlutfall ófaglærðra láglaunastarfsmanna miklu hærra en það ætti að vera. Samt eru hjúkrunarheimilin rekin með halla.

Það hefur sem sagt tekið allt þetta kjörtímabil að komast að engu. Vandinn er enn sá sami og enn er engin lausn í sjónmáli.

Förum yfir á málefnasvið örorku og fatlaðs fólks. Þar er 45% aukning, rúmir 29 milljarðar kr. Hér er að finna 4 milljarða kr. hækkun sem fór annars vegar í að minnka krónu á móti krónu skerðingar niður í aura á móti krónu og hins vegar beingreiðslur af því að ekki tókst að koma þeim hluta fjármagnsins inn í kerfið. Sú fjárhæð hékk eins og einhver gulrót fyrir örorkulífeyrisþega, samkvæmt upplifun þeirra alla vega, að gera kerfisbreytingar eða innleiða starfsgetumat. Þið fáið 4 milljarða inn í kerfið ef þið takið upp starfsgetumat. Þannig hljómaði þetta nokkurn veginn í lýsingum Öryrkjabandalagsins. Á sama tíma hefur lífeyrir almannatrygginga rýrnað um 5,7% frá árinu 2017 vegna mismunar á launaþróun og hækkun lífeyris almannatrygginga. Þá er ótalinn sá munur sem er á hækkun lífeyris miðað við svipuð laun í lífskjarasamningunum. Bara sá munur myndi kosta um 6,5 milljarða í viðbót á málefnasviði örorku og aldraðra samanlagt, til þess að fá sömu krónutöluhækkanir fyrir lægst launuðu hópana.

Til þess að orða það skýrt og greinilega: Lífeyrir almannatrygginga er 5,7% lægri en launaþróun á sama tímabili. Það er einföld kjaraskerðing. Hækkanir á þessu málefnasviði eru einungis vegna lýðfræðilegrar þróunar að öðru leyti en vegna þeirra 4 milljarða kr. sem nefndir eru hér að framan, þ.e. 25 milljarðar vegna lýðfræðilegra breytinga og svo 4 milljarðar sem áttu að vera þessi gulrót til að gera kerfisbreytingar.

Á málefnasviði aldraðra er 36% aukning, um 28,4 milljarðar kr. Það er bara kerfislægur vöxtur, ekkert annað. Þjóðin er að eldast.

Svo komum við yfir í vinnumarkað og atvinnuleysi. Þar er 16% aukning, tæpar 900 milljónir. Þar er einfaldlega bara mikið atvinnuleysi og fer minnkandi út tímabilið miðað við spár. Spár hækkuðu hins vegar á milli fjármálaáætlana, þ.e. í stefnu stjórnvalda eins og hún var samþykkt. Fyrir áramót var búist við lægra atvinnuleysi í lok spátímans en er í núverandi spá. Þegar síðasta stefna var samþykkt, sem átti að koma til móts við þær spár um þróun atvinnuleysis, hafði það ekki meiri áhrif en svo að spá um þróun atvinnuleysis hækkaði. Ég býst hins vegar við að þær aðgerðir sem hafa verið kynntar núna rétt fyrir kosningar, Hefjum störf o.s.frv., muni slá á þessa þróun og muni tvímælalaust hafa áhrif. Þetta eru aðgerðir sem hefði átt að grípa til mikið fyrr því að atvinnuleysið jókst eftir því sem leið á faraldurinn þrátt fyrir að stefna stjórnvalda væri að grípa inn í jafnóðum. Það er sem sagt ekki gripið inn í jafnóðum og þegar faraldurinn er á niðurleið, á lokamánuðum hans, er loksins gripið til einhverra mótvægisaðgerða. Áður átti bara að bíða og bíða.

Á þetta málefnasvið vantar kostnaðargreiningu vegna atvinnuleysisbóta fyrir námsmenn sem eiga rétt á þeim vegna þess að námsmenn sem vinna með námi greiða tryggingagjald og eiga að öðlast rétt til atvinnuleysisbóta.

Á málefnasviði húsnæðisstuðnings er um 24% samdráttur, um 3,5 milljarðar. Aukin stofnframlög til almennra íbúða útskýra alla hækkunina, eins og sagt er í fjármálaáætlun. En það er hins vegar ekkert sem útskýrir lækkunina sem er stórkostlega merkilegt, sérstaklega miðað við þann skort á íbúðum sem er á húsnæðismarkaðnum í dag. Það var að koma uppfærð spá um skortinn. Það var aukning um 500 íbúðir miðað við fyrri spá frá því í upphafi árs vegna fólksfjölgunar, sem er svo sem jákvætt en neikvætt að ekki er verið að leggja neitt í aukin stofnframlög til að koma til móts við þennan skort. Meðan það er skortur erum við alltaf að glíma við skortstöðu á húsnæðismarkaði sem þýðir að allar viðbætur í þann markað skila sér í hækkun á húsnæðisverði en ekki í lausn á vandamálinu. Það er bara tímabundin redding fyrir þá sem fá aðstöðu og geta drifið sig inn á markaðinn. Allir sem koma þar á eftir sitja í enn verri súpu en áður. Tímabundin lausn en ekki varanleg.

Að lokum er almennur varasjóður og sértækar fjárráðstafanir. Þar er 298% hækkun eða 36 milljarðar kr. Þetta er bara bull. Þetta er auðvitað engin hækkun. Þetta er bara óráðstafað svigrúm til útgjalda eða niðurgreiðslu skulda. Vandamálið er bara að ríkisstjórnin veit ekkert hvað hún á að gera við þetta fjármagn og hrúgar því bara í almennan varasjóð. Ef fara þarf í niðurskurðaraðgerðir á seinni hluta þessarar fjármálaáætlunar er frekar augljóst að við byrjum að sjálfsögðu á þessu málefnasviði. Það er ekki búið að úthluta þessu fjármagni í neitt nema niðurgreiðslu skulda eða eitthvað annað.

Horfurnar eins og ég sé þær eru að plan A er að ferðaþjónustan taki mjög vel við sér strax á næsta ári, mun betur en spár gera ráð fyrir, t.d. út af eldgosinu sem ég held að verði bara í nokkur ár. Það er mín spá. Það er A-plan. Ég held að það komi til með að ganga vel. Það þýðir að við þurfum að byggja meira af því að skammtímaleiga mun fara upp aftur. En vandinn er sá að við erum ekki með neitt plan B í þessari fjármálaáætlun. Ef allt fer eins og búist er við, hvað þá? (Forseti hringir.) Lykilspurningin er: (Forseti hringir.) Af hverju ætti ríkisstjórnin að fá að skila auðu á nákvæmlega þessum tíma?