151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

störf þingsins.

[13:26]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. síðasta ræðumanni að það eru mörg verkefni sem bíða næstu ríkisstjórnar. Það er hins vegar rangt sem hann hélt hér fram, að þessi ríkisstjórn hefði verið verklaus og litlu skilað. Þvert á móti hefur hún skilað miklu á mjög erfiðum tímum. Þegar við ræðum þessa hluti verðum við að hafa það samhengi í huga að á þessu kjörtímabili hefur ekki einungis verið við að eiga venjuleg viðfangsefni stjórnmálanna, venjuleg viðfangsefni í ríkisfjármálum, skattamálum, atvinnumálum og annað þess háttar, heldur höfum við undanfarið eitt og hálft ár þurft að takast á við fordæmalausa kreppu vegna farsóttar sem ekki varð við ráðið heldur þurfti að glíma hana við út frá þeim forsendum og með þeim tækjum sem við höfðum. Þegar farið verður yfir verkefni þessarar ríkisstjórnar og það sem hún skilar af sér þá held ég að dómur sögunnar verði sá að hún hafi siglt vel í gegnum það öldurót sem þessi kreppa hefur valdið. Við hrósum happi með að samdrátturinn hefur ekki verið eins mikill eins og óttast var þegar þetta ástand brast á hér á síðasta ári. Ástandið hefur verið betra, samdráttur á síðasta ári var minni en við óttuðumst og að hluta til má væntanlega að þakka það aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Að hluta til má þakka það því að bæði samfélagið og ríkissjóður voru í tiltölulega góðu standi þegar kreppan reið hér yfir.

Við höfum hins vegar mörg verk að vinna, eins og hv. þingmaður benti réttilega á. Og hvort sem það verður núverandi ríkisstjórn eða samsetning af einhverju öðru tagi þá verða verkefnin mikilvæg, ekkert auðveld. En það sem skiptir mestu máli er að við náum efnahagslífinu aftur á fyrri stað og gerum betur til að tryggja hér áfram lífskjör í landinu.