151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

staða bólusetninga og sóttvarnaráðstafana, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[15:27]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Lyfjastofnun heldur utan um aukaverkanaskrá og það er auðvitað mjög mikilvægt að upplýsingar um aukaverkanir í stóru og smáu rati þangað til þess að halda utan um reynsluna af tilteknum bóluefnum, ekki bara fyrir þá lotu sem við erum í núna heldur ekki síður fyrir seinni tíma eins og hv. þingmaður bendir réttilega á. Við erum líka að fylgjast með aukaverkunum innan Evrópu sem eru líka skráðar í öðrum löndum innan Evrópska efnahagssvæðisins þannig að við reynum að tryggja að þessar upplýsingar safnist vel upp og hægt sé að byggja ákvarðanir á þeirri þekkingu. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ábendingu því að þetta skiptir mjög miklu máli.