151. löggjafarþing — 106. fundur,  3. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[13:43]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja umræður um þetta þýðingarmikla mál og vandaða frumvarp en ég tek til máls í tilefni af ummælum framsögumanns í umræðum hér undir kvöld í gær og vil af því tilefni segja nokkur orð til viðbótar. Ég vil í upphafi geta þess sem segir í skýringum með frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Mansal er gróft mannréttindabrot sem felst í að brjóta gegn friðhelgi einstaklings. Brotastarfsemin beinist gegn frjálsræði brotaþola og helgustu persónuréttindum í þeim tilgangi að hagnýta líkama viðkomandi, vinnukrafta eða þekkingu í annars þágu.“

Herra forseti. Í greinargerð með frumvarpinu er vitnað til skýrslu greiningardeildar embættis ríkislögreglustjóra, sem er dagsett í maí 2019. Í greinargerðinni er vitnað til þess sem þar segir, að mikil fjölgun hælisleitenda auki hættuna á mansali. Þetta er tekið upp í greinargerð með frumvarpinu úr skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra, herra forseti, að mikil fjölgun hælisleitenda auki hættu á mansali þar sem bág félagsleg staða þeirra geri þá útsetta fyrir misneytingu og kúgun.

Herra forseti. Samhliða því að við ræðum þetta ágæta og nauðsynlega frumvarp liggur annað frumvarp fyrir sem sýnist að sínu leyti ganga í þveröfuga átt, með því að hvetja til aukins straums hælisleitenda hingað til lands. Með því er að sjálfsögðu vísað til innflytjendafrumvarps hæstv. félagsmálaráðherra þar sem gefin eru fyrirheit um að öllum skuli tryggð sömu kjör og svokölluðum kvótaflóttamönnum, óháð því hvernig þeir koma til landsins. Þetta er náttúrlega tilboð og yfirlýsing sem verður ekki misskilin og heyrist út um heim. Þeir hér á Íslandi sem starfa að þessum málum, m.a. sem ráðgjafar erlendra aðila, munu ekki láta sitt eftir liggja við að koma þessum skilaboðum áfram.

Við erum í þeirri stöðu, herra forseti, að við rekum stefnu í þessum málaflokki sem nágrannalönd okkar, sem við viljum gjarnan bera okkur saman við, önnur Norðurlönd, eru að hverfa frá eða eru þegar horfin frá og lýsa sem mistökum. Mette Frederiksen, forsætisráðherra Dana, sagði í umræðu 6. október sl., á fyrsta þingdegi, í eins konar umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra, að stefna fyrri ára væri mistök, það var orðið sem hún notaði, og að evrópska hælisleitendakerfið væri hrunið. Það er orðið þekkt hér og menn farnir að átta sig á því, m.a. vegna frétta í fjölmiðlum, að danska jafnaðarmannastjórnin, undir forystu Mette Frederiksen, vill ekki einn einasta hælisleitanda á danska grundu. Hún vill hjálpa nauðstöddu fólki í heimalandi þess eða sem næst heimaslóð svo að peningarnir nýtist sem best og gagnist sem flestum.

Nú hafa orðið þau tíðindi, herra forseti, að þetta meginstefnumál dönsku ríkisstjórnarinnar, sem var kynnt í aðdraganda kosninga, þegar þær voru síðast haldnar í Danmörku árið 2019, sem helsta stefnumál jafnaðarmannaflokksins, að senda flóttafólk til þriðja ríkis, er orðið að lögum. Ríkisútvarpið birtir frétt í dag þar sem segir, með leyfi forseta:

„Danska þingið samþykkti í morgun lög sem heimila að umsækjendur um alþjóðlega vernd séu sendir til ákveðins ríkis utan Evrópu þar sem þeir bíða niðurstöðu umsókna sinna. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna lýsir yfir áhyggjum af því að fleiri ríki grípi til aðgerða sem þessara.“

Það kemur fram í fréttinni að frumvarpið sem Mette Frederiksen forsætisráðherra lagði fram var samþykkt með 70 atkvæðum gegn 24. — Maður sér af þessum tölum og öðrum tölum um atkvæðagreiðslur að atkvæðagreiðslur eru sýnilega ekki jafn fjölsóttar í danska þinginu og við eigum að venjast hér á Alþingi. — Þetta eru alveg skýrar tölur. Frumvarpið er samþykkt á danska þinginu með 70 atkvæðum gegn 24. Segir í fréttinni að samkvæmt lögunum þurfi fólk að sækja um alþjóðlega vernd í eigin persónu á landamærum Danmerkur. Svo er það flutt með flugvél til þess ríkis sem Danmörk hefur samið við að hýsa flóttamenn. Þar bíður fólk á meðan mál þess er til meðferðar. Ef svarið er já frá dönskum stjórnvöldum fær fólk ekki að fara aftur til Danmerkur heldur fær það hæli í útvistunarríkinu. Ef svarið er nei þarf fólk að yfirgefa það land.

Frumvarpið sem nú er orðið að lögum hafði legið fyrir danska þinginu um skeið áður en það var samþykkt. Fram kom gagnrýni á frumvarpið úr ýmsum áttum, m.a. í umsögnum stofnana eins og Amnesty International. Í þeirri umsögn er því haldið fram að stefna ríkisstjórnarinnar, þ.e. dönsku jafnaðarmannaríkisstjórnarinnar, um móttökustöð í ríki utan Evrópu feli í sér skort á samkennd, sé ómannúðleg og taki frá fólki réttinn til að leita hælis. Málsvörn jafnaðarmanna hefur falist í því að benda á að umtalsverð fækkun hælisleitenda, með þeirri stefnu sem danska ríkisstjórnin fylgir, leiði af sér aukið fé til að hjálpa fleirum á þeirra heimaslóð. Fleiri flóttamenn fái vernd nær heimkynnum sínum í stað þess að hætta lífi sínu á siglingu yfir Miðjarðarhafið. Er ástæða til að geta þess að með þessari stefnu einbeitir danska ríkisstjórnin sér að því að taka frá fólki af misjöfnu sauðahúsi, glæpamönnum myndu menn kannski segja, viðskiptatækifæri sem felast í að bjóða fólki ferð á manndrápsfleytu yfir Miðjarðarhafið fyrir háar fjárhæðir. Eins og allir vita, eða eins og ítrekað hefur komið fram, eru það glæpasamtök sem starfa að þessari iðju. Konur og börn eru í stórhættu á misneytingu og kúgun og mansali í þessu ferli þannig að umrædd stefna þjónar líka þeim tilgangi að vinna gegn mansali.