151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

fasteignalán til neytenda.

791. mál
[12:50]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Við ræðum hér breytingu á gildandi lögum sem voru talsvert opnari en þetta frumvarp hvað varðar það atriði sem hér er sérstaklega til umfjöllunar. Lögin voru ekki endilega sett með það að markmiði að þessum aðferðum yrði beitt heldur frekar að hægt væri að grípa til aðferða sem þessara ef þær sérstöku aðstæður kæmu upp í hagkerfinu. Þeim hefur lítið verið beitt en samt haft talsverð áhrif. Ég ætla að koma inn á það í ræðu minni.

Við þurfum nefnilega að líta til áhrifanna sem lögin hafa haft fram til þessa og hvort sú breyting sem hér er lögð til sé til bóta í ljósi þeirrar reynslu. Fyrir þá sem eru að koma nýir að málinu ætla ég að lesa stuttlega upp meginefni breytingarnar á 27. gr. laganna, en þar segir, með leyfi forseta:

„Við 1. mgr. bætast þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Hámark heildarfjárhæðar fasteignaláns getur verið frá fimmföldum til nífaldra árlegra ráðstöfunartekna neytanda. Hámark greiðslubyrðar fasteignaláns getur numið 25–50% af mánaðarlegum ráðstöfunartekjum neytanda. Með ráðstöfunartekjum er átt við væntar viðvarandi tekjur að frádregnum beinum sköttum og gjöldum.“

Hér er ríkisvaldið að leggja línurnar um það hvernig kerfið eigi að grípa inn í frjálsa samninga. Mér finnst skipta máli að með þessari breytingu sé í rauninni verið að gera það að einhvers konar meginreglu frekar en að þetta sé varúðartæki sem hægt sé að grípa til þegar aðstæður kalla á það.

Þetta mál veldur mér áhyggjum af nokkrum ástæðum. Það dregur augljóslega úr viðskiptafrelsi og það eykur kerfisvæðingu. Þó að fyrra frumvarp hafi vissulega gert það líka þá var það kannski meira sett fram sem varúðarráðstöfun. Hér finnst mér ríkið í rauninni vera að kalla eftir meira inngripi kerfisins og að kerfið stýri því hvers konar lán fólk megi taka. Þetta dregur úr möguleikum tekjulægra fólks á að fá lán til að koma sér upp eign í fasteign.

Lítum þá aðeins á hvernig þróunin hefur verið í þessum efnum undanfarin ár, m.a. árin frá því að frumvarpið sem hér stendur til að breyta var samþykkt. Það ber talsvert á því, og ég geri ráð fyrir að flestir eða allir þingmenn þekki það, að fólk fái ekki greiðslumat til að fá lán vegna þess að það er ekki með nógu háar tekjur til að standast þau skilyrði sem sett eru. Engu að síður borgar þetta fólk í mörgum tilvikum mánaðarlega hærri upphæð í leigu en það þyrfti að borga sem afborgun af fasteignaláni. Þá hlýtur það að blasa við okkur, herra forseti, að það er einhver galli á þessu kerfi, að fólk geti ekki fengið tækifæri til þess, eins og kynslóðirnar á undan hafa fengið, að byggja upp eign en þurfi í staðinn að borga meira mánaðarlega í leigu. Þetta er fyrst og fremst ósanngjarnt en það er líka óæskilegt fyrir þróun samfélagsins. Lengi var það markmið a.m.k. sumra flokka, ekki hvað síst Sjálfstæðisflokksins, að allir hefðu tækifæri á því að byggja upp eign og alveg sérstaklega að eignast eigið húsnæði. Með þessu inngripi er dregið úr möguleikum þeirra tekjulægri á að komast í þann hóp, að koma sér í það sem stundum er kallað tröppugangur fasteignamarkaðarins.

Áratugum saman hefur tekjulægra fólk á Íslandi haft tækifæri á að byggja upp eign. Þegar menn fá lán til að geta greitt útborgun í fasteign þá hefur það reynst mikill hvati. Það er mikill hvati í því fólginn að maður geti nýtt það sem maður er að vinna sér inn í að byggja upp eign vegna þess að þegar menn hafa fengið lánin og fengið að kaupa íbúðina þá hafa þeir jafnan lagt á sig mikla vinnu við að standa í skilum og byggja upp eign sína. Með þessu er hætt við að slíkt tækifæri verði tekið af fólki. Það er ekki framþróun að mínu mati. Þegar bankarnir hafna umsókn um lán hafa þeir jafnvel vísað í reglur og sagt: Við myndum gjarnan vilja lána þér en reglurnar sem ríkið setur leyfa það bara ekki. Alla vega eru þekkt dæmi um þetta sem komið hafa fram opinberlega.

Nánari útlistun á hámarki þess hversu mikil greiðslubyrði fólks megi vera er viðbót við þær reglur um hámarksveðsetningarhlutfall sem þegar hafa verið settar. Með þessari breytingu tel ég að ríkið sé í vaxandi mæli að grípa inn í frelsi fólks til samninga og gera tekjulægra fólki erfiðara að vinna sig upp, komast af stað, geta byrjað að mynda eign í húsnæði. Þá ítreka ég það sem ég sagði áðan: Þær tekjur sem menn eru með þegar þeir eru að byrja, sérstaklega ungt fólk, endurspegla ekki endilega tekjurnar eins og þær munu þróast í framhaldinu. Ungt fólk á Íslandi hefur jafnan viljað eignast sitt eigið húsnæði. Margir hafa byrjað mjög ungir og með frekar lágar tekjur til að byrja með en þegar þeir eru stoltir búnir að kaupa sína íbúð hafa þeir aukið vinnunna og svo hækkað í launum með aldrinum. Eins og þekkt er aukast tekjur fólks fram eftir aldri og ná að jafnaði hámarki um miðjan aldur þegar greiðslubyrðin er kannski mest og fólk nær að byggja upp sem mesta eign í fasteigninni. Þessi aðgangshindrunum — eiginlega er ekki hægt að kalla það annað en aðgangshindrunum — tekjulægra fólks að hópi fasteignaeiganda tel ég vera mjög varasama.

Ég ætla að vísa í stutta málsgrein í greinargerð með frumvarpinu en þar segir, með leyfi forseta:

„Við mat á heppilegum mörkum fyrir hámark heildarfjárhæðar fasteignaláns af árlegum ráðstöfunartekjum og hámark greiðslubyrðar fasteignaláns af mánaðarlegum ráðstöfunartekjum var litið til reynslu nágrannalanda, rannsókna á þessu sviði og stöðunnar á fasteignalánamarkaði á Íslandi.“

Svo fáum við nánari skýringar á því að það sé nú hinn ýmsi háttur á þessu í öðrum löndum. Einkum er þó vísað til landa þar sem áherslan er öll á leigumarkaðinn og fólki hefur annaðhvort áratugum saman verið beint inn á leigumarkaðinn frekar en að reyna að byggja upp eign í fasteign eða það einfaldlega verið normið og hitt undantekning. Í þeim löndum sem hér er verið að líta til hafa það bara verið þeir tekjuhæstu sem hafa eignast eigið húsnæði. Þessu hefur verið öðruvísi háttað á Íslandi. Þróunin hefur reyndar verið, og sérstaklega í framhaldi af bankahruninu, í þá átt að hærra hlutfall fólks er orðið leigjendur, en það gerir það margt hvert tilneytt vegna dæma eins og þeirra sem ég nefndi hér áðan. Það kemst ekki inn á fasteignamarkaðinn og þarf jafnvel að borga meira í leigu en það þyrfti að borga fyrir að mynda sér eign.

Er ekki neytendum og fjármálastofnunum treystandi til að meta það hverjir megi fá lán? Í gegnum tíðina, sérstaklega þegar samfélagið var minna og menn þekktu betur umsækjendur um lán, ákváðu lánastofnanir oft og tíðum, t.d. í minni bæjum úti á landi þar sem menn þekktu vel til náungans, að veita fólki séns af því að fjármálastofnunin var kannski persónulegri og hafði trú á einstaklingnum. Yfirleitt stóðu menn undir þeim væntingum og lögðu á sig vinnu til að eignast húsnæði.

Nú þegar tíminn er að renna frá mér ætla ég að víkja aðeins að öðrum texta í þeim kafla greinargerðarinnar sem heitir Meginefni frumvarpsins. Þar sem talað er um gildandi ákvæði er rakið hvernig fyrirkomulagið hafi verið opnara en hér er gert ráð fyrir og ákvæðinu hafi ekki verið beitt. En hér er eiginlega verið að leggja línurnar um að ákvæðinu verði beitt með þessum afmarkaða hætti. Ég næ ekki að fara nánar út í það af því að ég átti alveg eftir að ræða þann þátt málsins sem snýr að aukinni kerfisvæðingu.

Við sjáum það hvað eftir annað í þingmálum og það hefur verið um langa hríð að stöðugt er verið að útvista til stofnana út í bæ ákvarðanatöku um það hvernig samfélaginu er stjórnað og jafnvel, eins og í þessu tilviki, um hvers konar samninga fólk megi gera. Þegar lögin voru sett á sínum tíma, við þær aðstæður sem þá voru og lagasetningin sneri mjög að þeim, þá fannst mér viðeigandi að Seðlabankinn hefði ákveðin varúðartæki. Svo heldur kerfið einhvern veginn alltaf áfram að þróast og það sem áður átti að nýta í neyð getur orðið að vana án aðkomu löggjafans, án aðkomu kjörinna fulltrúa. Við sjáum það á sífellt fleiri sviðum að ákvarðanir sem hafa mikil og bein áhrif á líf fólks eru teknar af ókjörnum fulltrúum úti í bæ. Og hvað eiga kjósendur þá að gera þegar kemur að kosningum og þeir eru ósáttir við sinn hlut eða finnst að samfélaginu eigi að vera stjórnað á annan hátt? Hvernig eiga þeir að bregðast við? Þeir geta ekki refsað þeim sem tóku ákvarðanirnar í kosningum. Þeir þurfa að kjósa flokka sem eru tilbúnir að breyta þessu, virkja lýðræðið aftur og gera það sem þeir segjast ætla að gera, hafa einhverja sýn, einhverja stefnu og ætla að fylgja henni eftir og stjórna í samræmi við þau fyrirheit sem gefin eru, ekki bara að skipta á milli sín ráðherrastólum og setja svo stjórn landsins í hendur ókosinna embættismanna.