151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

slysatryggingar almannatrygginga.

424. mál
[17:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Ég held einmitt að það sé mikilvægt, eins og kemur fram í nefndarálitinu, að reglugerð eins og þessi verði unnin í samráði við hagsmunaaðila, þar með talda til að mynda þá aðila sem hv. þingmaður nefndi, slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn, en jafnframt aðra þá sem kunna að eiga við. Því held ég að það sé varhugavert að falla í þá freistni, eins og maður gæti sagt, að fara að telja þá upp sérstaklega í lagatextanum. Það að tiltaka krabbamein eða aðra sjúkdóma tiltekinna starfshópa gæti leitt til þeirrar ályktunar að sjúkdómar annarra starfsstétta sem ekki væru taldir upp í lagatextanum eða lagagreininni væru þá minna áríðandi með einhverjum hætti. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við höfum það ekki þannig.

Ferlið verður væntanlega þannig, ég ímynda mér það án þess að ég ætli mér þá dul að vita nákvæmlega hvernig ráðherrar skipa slíkan starfshóp, og við leggjum það í rauninni til í nefndarálitinu, að ráðherra hafi samráð um þetta við þá hópa sem kynnu að falla undir þetta og þannig myndu menn ræða sig að niðurstöðu. Almennt myndi ég telja eðlilegt að þeir sjúkdómar sem hafa í ritrýndum tímaritum, eða sem sagt innan fræðanna, hlotið viðurkenningu eða verið staðfestir sem atvinnusjúkdómar féllu að öðru jöfnu undir slíka reglugerð.