151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

farþegaflutningar og farmflutningar á landi.

690. mál
[22:19]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um farþegaflutninga og farmflutninga á landi, nr. 25/2017. Þetta er frumvarp um tímabundna gestaflutninga og vanræksluálag. Nefndarálitið er frá umhverfis- og samgöngunefnd og liggur fyrir á þingskjali 1546 og þingmálið er nr. 690.

Nefndinni bárust umsagnir frá Bandalagi íslenskra leigubifreiðastjóra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum ferðaþjónustunnar, Strætó bs. og sýslumanninum á Vestfjörðum. Nefndin fékk til sín gesti sem fylgdu eftir þessum umsögnum, auk þess að fá til sín gesti frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu.

Lagðar eru til tvíþættar breytingar á lögum um farþegaflutninga og farmflutninga á landi, nr. 25/2017. Annars vegar er um að ræða skilgreiningu á tímabundnum farþegaflutningum sem flutningsfyrirtæki með staðfestu í löndum innan Evrópska efnahagssvæðisins starfrækja hér á landi gegn gjaldi á grundvelli bandalagsleyfis, og hins vegar úrræði til eftirlits með greiðslu fargjalda í almenningssamgöngum til að opna fyrir og styðja skilvirkari lausnir við greiðslu fargjalda með það að markmiði að efla þjónustu við notendur.

Fyrst fjallaði nefndin um starfshóp um heildarlög um almenningssamgöngur en í nokkrum umsögnum var bent á það að mikilvægt væri að sett yrðu heildstæð lög um almenningssamgöngur þar sem skyldur og réttindi bæði flytjanda og farþega væru vel tryggð. Í umsögnum var vísað til þess að til hefði staðið í nokkurn tíma að fara í vinnu og setja á fót starfshóp í þessu skyni en sú vinna hefur ekki farið fram. Nefndin tekur undir þau sjónarmið sem komu fram í umsögnunum og telur að í tengslum við framþróun almenningssamgangna á næstu árum sé æskilegt að mótuð verði sérstök lagaumgjörð um þær þar sem tekið væri tillit til notenda, flytjenda, samfélagslegs hlutverks almenningssamgangna og umhverfissjónarmiða. Beinir nefndin því til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis að hefja undirbúning að mótun slíkrar löggjafar, þar með talið að skipa starfshóp sem vinni tillögur að breyttu lagaumhverfi í þá veru.

Þá ætla ég að fara yfir breytingartillögur nefndarinnar, fyrst um breytingu á hugtakinu fargjaldaálag. Nefndin leggur til að í stað orðsins vanræksluálag verði notað orðið fargjaldaálag. Nefndinni var bent á að vanræksluálag væri kannski ekki heppilegt orð. Það væri óþarflega líkt því orði sem notað er yfir viðurlög sem þeir sæta sem færa ökutæki sín ekki til skoðunar á tilsettum tíma. Á hinn bóginn væri orðið ekki lýsandi fyrir gjald sem fyrirtækjum sem sinna almenningssamgöngum er heimilt að leggja ofan á fargjald, geti farþegi í almenningssamgöngum ekki sýnt fram á greiðslu rétts fargjalds þegar eftir því er leitað. Lagt er til að orðið fargjaldaálag verði ofan á um þetta gjald.

Þá var fjallað um hugtakið „starfsmaður á vegum flytjanda“. Í frumvarpinu er bent á að það sé ekki endilega starfsmaður í beinu ráðningarsambandi við flytjanda sem sinnir eftirliti með innheimtu fargjalda eða því hvort fargjöld hafi verið greidd. Til dæmis hefur verið bent á að þar geti verið um að ræða starfsfólk öryggisfyrirtækis sem flytjandi fær sér til aðstoðar sem skoðar staðfestingu á greiðslu fargjalds og skilríki. Þess vegna leggur nefndin til að vísað verði til starfsmanns á vegum flytjanda í stað þess að vísa til starfsmanns flytjanda. Þá er áréttað í nefndarálitinu að starfsmaður á vegum flytjanda hefur ekki lögregluvald og frumvarpið hefur engar breytingar á slíkum heimildum í för með sér. Það setur nefndin inn vegna orðalags í greinargerð sem gat bent til annars, þannig að það sé alveg skýrt.

Þá er að lokum fjallað um breytingu sem varðar persónuvernd. Til að taka af allan vafa um heimildir flytjenda til vinnslu persónuupplýsinga vegna álagningar og innheimtu fargjaldaálags leggur nefndin til að ný málsgrein bætist við 6. gr. þar sem fram kemur að flytjanda sé heimil nauðsynleg vinnsla persónuupplýsinga vegna álagningar og innheimtu fargjaldaálags samkvæmt greininni að uppfylltum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og reglum settum á grundvelli þeirra.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir.

Undir nefndarálitið skrifar sú sem hér stendur og er framsögumaður, Bergþór Ólason, formaður nefndarinnar, Ari Trausti Guðmundsson, Guðjón S. Brjánsson, Karl Gauti Hjaltason, Kolbeinn Óttarsson Proppé, og þeir Jón Gunnarsson og Vilhjálmur Árnason skrifa undir álitið með heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis þar sem þeir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Þá var Hanna Katrín Friðriksson einnig fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Að lokum vil ég þakka gott samstarf í nefndinni við vinnslu þessa máls og legg til að það verði samþykkt.