151. löggjafarþing — 117. fundur,  13. júní 2021.

þingfrestun.

[01:21]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Háttvirtir alþingismenn.

Senn lýkur störfum þessa þings sem er hið síðasta á þessu kjörtímabili. Alþingiskosningar eru fyrirhugaðar 25. september næstkomandi. Það er áhugavert að þetta er í fyrsta skipti síðan 1908 sem kosið er til Alþingis í septembermánuði, ég var að vísu ekki í framboði þá, en það ár var kosið 10. september og þær kosningar voru sögulegar fyrir þær sakir að það voru fyrstu leynilegu þingkosningarnar á Íslandi.

Þetta þing hefur verið starfsamt. Á þinginu hafa 133 stjórnarfrumvörp, 11 nefndarfrumvörp og 6 þingmannafrumvörp orðið að lögum. Alls hafa því 150 lög verið samþykkt. Þá hefur 21 stjórnartillaga, 7 nefndartillögur og 6 þingmannatillögur verið samþykktar. Alls hafa 34 þingsályktanir verið samþykktar. Búið er að svara 261 skriflegri fyrirspurn til ráðherra og 18 munnlegum fyrirspurnum hefur verið svarað. Þá var 7 þingmálum vísað til ríkisstjórnarinnar. Sérstakar umræður hafa verið 26 og í 10 skipti hefur hæstv. heilbrigðisráðherra gefið Alþingi skýrslu um stöðu kórónuveirufaraldursins, sóttvarnaráðstafanir, bólusetningar og því um líkt.

Það var 15. mars á síðasta ári sem Alþingi virkjaði viðbragðsáætlun sína við kórónuveirufaraldrinum. Á þeim 15 mánuðum sem liðnir eru síðan, sem er um þriðjungur kjörtímabilsins, hefur heimsfaraldurinn sett mark sitt á störf þingsins og þau um margt verið með óvenjulegum hætti. Engan hefði t.d. órað fyrir því í mars á síðasta ári að nefndarfundir og aðrir vinnufundir þingmanna og starfsfólks ættu eftir að verða fjarfundir næstu 15 mánuði, hvað þá heldur að þingfundasvæðið ætti eftir að ná yfir fjóra hliðarsali í viðbót við þingsalinn. Það sem þó stendur upp úr er að okkur hefur tekist að halda Alþingi starfhæfu allan þann tíma. Í þeim efnum hafa þingmenn og starfsfólk lagst á eitt um að gera slíkt mögulegt og ég vil þakka fyrir það. Jafnframt er ljóst að stórfelld notkun fjarfundatækninnar í þessum faraldri á eftir að hafa varanleg áhrif á starfshætti Alþingis. Það bíður nýrrar forystu hér á þingi að ákveða hvernig Alþingi getur nýtt sér lærdóma af þessari reynslu.

Á tveimur síðustu löggjafarþingum hafa 57 lagafrumvörp og tvær þingsályktanir verið samþykktar sem tengjast heimsfaraldrinum og eru hrein viðbót við venjuleg störf Alþingis. Þörfin á afgreiðslu þessara mörgu mála sem leitt hefur af heimsfaraldrinum undirstrikar hversu þýðingarmikið það var að halda Alþingi starfhæfu allan tímann. Alþingi hefur þannig með afgerandi hætti átt sinn hlut að máli í viðbrögðum við faraldrinum og það kann að eiga einhvern þátt í því að traust til Alþingis jókst verulega milli kannana sem gerðar voru í febrúar 2020 og febrúar 2021, en það fór úr 23% í 34% á milli ára og hafði reyndar einnig hækkað umtalsvert árið þar á undan.

Ég vil í þessu sambandi ítreka það sem ég sagði í eldhúsdagsumræðum á dögunum, að traust og virðing Alþingis er áunnið fyrirbæri. Jafn eðlilegt og það er að takast á og nauðsynlegt að gagnrýna það sem er gagnrýnivert er það á hinn bóginn skaðlegt og ómaklegt að úthrópa Alþingi sem ómögulegan vinnustað, sem það svo sannarlega er ekki, og tala niður eigið starf í leiðinni. Látum af því.

Þessum orðum mínum vil ég þó til viðbótar segja að Alþingi þarf að sjálfsögðu að skoða starfshætti sína, skipulag og framgöngu alla með gagnrýnisgleraugu á nefinu og vera stanslaust með umbótaáætlanir í gangi. Þar undir fellur starfsumhverfi þingmanna og starfsfólks sem þarf vissulega að gera fjölskylduvænna. Alþingi, sem elsta og æðsta stofnun þjóðarinnar, á að hafa mikinn metnað fyrir sína hönd og vilja vera til fyrirmyndar. Hér á ekki að líðast einelti eða útskúfun, hér má aldrei umbera kynferðislega áreitni eða ofbeldi, ekki kynbundna mismunun, ekki kynþáttahyggju, ekki fötlunar- eða öldrunarfordóma né neina aðra þá háttsemi sem ekki sæmir siðmenntuðu samfélagi. Vinnuumhverfið hér hefur verið til umfjöllunar með ýmsum hætti undanfarin þrjú ár og Alþingi hefur notið aðstoðar utanaðkomandi sérfræðinga og ráðgjafa í því sambandi. Ég heiti á þá sem koma til með að stýra hér málum á komandi árum að láta ekki deigan síga í þeim efnum.

Þrátt fyrir að þetta kjörtímabil eigi eftir að verða minnisstætt vegna kórónuveirufaraldursins hefur margt fleira staðið upp úr. Annar og mjög veigamikill atburður varð þegar fyrsta skóflustunga var tekin að skrifstofubyggingu fyrir Alþingi 4. febrúar á síðasta ári, rúmum mánuði áður en heimsfaraldur skall á af fullum þunga. Kórónuveirufaraldurinn hefur þó haft óveruleg áhrif á þær framkvæmdir og eru verklok miðuð við 1. maí 2023. Ætlunin er að taka bygginguna í notkun áður en þing verður sett í september það ár, sem er um mitt næsta kjörtímabil. Þessi skrifstofubygging eða kjarnabygging fyrir Alþingi hefur verið langþráður draumur margra hér um áratugaskeið og mun gjörbylta vinnuaðstæðum á staðnum þegar öll starfsemi þingsins að þessu leyti verður komin undir eigið þak. Þá sparast um leið háar fjárhæðir í húsaleigu á dýrasta stað í borginni. Ég óska þeim til hamingju sem koma til með að njóta góðs af þessari byggingu, bæði starfsfólki og þingmönnum framtíðarinnar.

Ég get illa farið að fjalla um húsnæðismál þingsins án þess að minnast á þau stórmerku tímamót að þann 1. júlí næstkomandi eru 140 ár liðin síðan þingmenn gengu hér inn til fyrsta fundar í nýreistu þinghúsinu árið 1881. Þetta var þá óumdeilanlega glæsilegasta bygging landsins og þrátt fyrir að margar fagrar byggingar hafi risið síðan verður vart um það deilt að þinghúsið er ein af perlum byggingarlistar á Íslandi. Það er mikilvægt að Alþingishúsið verði áfram lifandi hluti starfseminnar. Það er útgangspunkturinn í þeirri umræðu sem nú fer fram hér innan þings um hvernig megi endurbæta þingsalinn svo að hann geti áfram þjónað sem best þörfum þingmanna.

Á kjörtímabilinu gekk jafnframt eftir að hrinda í framkvæmd öðru langþráðu markmiði sem segja má að hafi verið slegið á frest fyrir meira en áratug síðan og það er að bæta svo um munaði þjónustu við þingflokka. Þetta er langstærsta skrefið sem stigið hefur verið í þeim efnum. Í þremur áföngum voru ráðnir 17 nýir starfsmenn til viðbótar við þá átta sem fyrir voru og fjárhagsgrundvöllur þingflokkanna styrktur um leið. Samhliða þessu var skrifstofa þingsins og nefndasvið eflt með ráðningu fjögurra nýrra sérfræðinga og var áhersla einkum lögð á að bæta þjónustu við fjárstjórnar- og eftirlitshlutverk nefndanna, auk þess sem lagaskrifstofa þingsins var efld.

Háttvirtir alþingismenn. Kosningar eru ávallt tímamót. Við lok þessa kjörtímabils munu margir alþingismenn hverfa af þingi. Sumir hafa ákveðið að gefa ekki kost á sér til endurkjörs, aðrir hafa ekki hlotið framgang í prófkjörum, flokksvölum eða uppstillingum og enn aðrir munu kannski ekki ná endurkjöri eins og gengur og gerist og við þekkjum.

Rúmur fimmtungur þingheims, 22%, hefur með beinum hætti ákveðið að sækjast ekki eftir endurkjöri. Í þeim hópi er fyrsti varaforseti Alþingis, Guðjón S. Brjánsson, 6. þm. Norðvest., en hann hefur átt sæti á Alþingi í fimm ár.

Þá láta tveir aðrir þingmenn sem áður hafa gegnt störfum varaforseta af þingmennsku. Það eru Helgi Hrafn Gunnarsson, 3. þm. Reykv. n., og Jón Þór Ólafsson, 8. þm. Suðvest. Helgi hefur setið á Alþingi í sjö og hálft ár og Jón hefur átt hér sæti í sjö ár.

Þá hverfa nú af þingi tveir þingflokksformenn, Gunnar Bragi Sveinsson, 6. þm. Suðvest., og Þórunn Egilsdóttir, 4. þm. Norðaust. Gunnar Bragi hefur setið á Alþingi í tólf og hálft ár og þar af fjögur og hálft ár á ráðherrabekk. Þórunn hefur átt sæti á Alþingi í átta og hálft ár. Vil ég fyrir hönd þingheims óska Þórunni góðs bata í þeim veikindum sem hún á nú við að stríða og alls góðs í framtíðinni.

Einnig lætur nú af þingmennsku eftir fjórtán og hálft ár Kristján Þór Júlíusson, 1. þm. Norðaust. og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þá lætur af þingmennsku Sigríður Andersen, 1. þm. Reykv. s., sem átt hefur sæti á Alþingi í sex og hálft ár og um skeið á ráðherrabekk. Einnig kveðjum við nú Ágúst Ólaf Ágústsson, 3. þm. Reykv. s. og fyrrverandi varaformann Samfylkingarinnar, sem hefur átt sæti á Alþingi með hléum í tíu ár.

Auk þeirra þingmanna sem ég hef nú nefnt hafa fimm aðrir hv. þingmenn ákveðið að sækjast ekki eftir endurkjöri. Það eru þingmennirnir Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Páll Magnússon, Smári McCarthy og Ari Trausti Guðmundsson. Öllum þeim 13 þingmönnum sem hafa ákveðið að gefa ekki kost á sér til frekari þingmennsku vil ég þakka fyrir störf þeirra í þágu lands og þjóðar. Persónulega vil ég þakka þeim fyrir gott samstarf og góð kynni og óska þeim alls hins besta í framtíðinni.

Þar sem ég er í hópi þeirra þingmanna sem láta nú af þingmennsku vil ég sérstaklega þakka samferðafólki mínu hér í gegnum tíðina fyrir góð kynni þótt vissulega hafi skipst á skin og skúrir eins og í lífinu almennt. Ég hef helgað stjórnmálum og Alþingi umtalsverðan meiri hluta ævidaga minna og ég kveð sáttur, fullkomlega sáttur, þegar ég lít yfir farinn veg. Hér hefur verið gott að starfa og ég læt því af þingmennsku með góðar minningar um mikinn fjölda fólks sem ég hef átt lengri og skemmri samleið með og það hefur, held ég, undantekningarlaust átt a.m.k. eitt sameiginlegt, það hefur viljað landi sínu vel. Þetta fólk hefur kannski ekki endilega átt mikið meira sameiginlegt en það munar um minna. Ég hef notið þeirra rúmu 38 ára sem ég hef setið á Alþingi, í nánast öllum hlutverkum á mismunandi tímum sem stjórnmálin hafa upp á að bjóða. Ég mun sakna Alþingis en ég kveð það sáttur.

Áður en ég lýk máli mínu vil ég þakka forsætisnefnd fyrir samstarfið á kjörtímabilinu og fyrsta varaforseta, Guðjóni S. Brjánssyni, alveg sérstaklega, sem er afar traustur og góður maður að vinna með. Nefndin hefur tekið nokkrum breytingum á kjörtímabilinu og hefur aukið á fjölbreytileikann og allir hafa lagt sitt af mörkum til starfsins en hver með sínu lagi.

Sömuleiðis þakka ég formönnum þingflokka. Samstarf forseta við formenn þingflokka, og að það sé gott, er einn mikilvægasti þátturinn í að tryggja farsælan framgang þingstarfa. Einnig þar, í hópi formanna þingflokka, hafa orðið nokkrar mannabreytingar á kjörtímabilinu. Ekki síst hafa vinir mínir Píratar verið duglegir við að færa sinn mannskap ótt og títt milli embætta, stundum svo að maður hefur mátt hafa sig allan við að vita hver var hvað hverju sinni.

En allt hefur þetta gengið ágætlega og kann ég öllum bestu þakkir fyrir samstarfið og góða viðkynningu. Oft hefur það komið í hlut formanns stærsta þingflokksins, Birgis Ármannssonar, að halda utan um verkefni á borði þingflokksformanna og er ástæða til að þakka honum sérstaklega. Það verður seint sagt að óðagot einkenni framgöngu Birgis en þar fer afar traustur maður með reynslu, sem er betri en enginn þegar mest liggur við eins og við höfum t.d. fengið að kynnast undanfarna klukkutíma og daga. Einnig stóð hér til að óska Birgi til hamingju með afmælisdaginn, sem var að vísu í gær, en allar góðar afmælisveislur standa gjarnan eitthvað inn í nóttina og ég óska honum því til hamingju með afmælið. Þetta mun ekki vera í fyrsta skipti sem Alþingi lýkur störfum á afmælisdegi Birgis eða í nágrenni við hann.

Ég vil ítreka þakkir mínar til alþingismanna fyrir gott samstarf þann tíma sem ég hef notið þess heiðurs að gegna starfi þingforseta. Að gömlum og góðum sið óska ég utanbæjarmönnum góðrar heimferðar og ánægjulegrar heimkomu og árna ykkur öllum heilla.

Þau ár sem ég hef gegnt forsetastarfinu hef ég notið einstaklega góðs samstarfs við hið hæfa, vinnusama og úrræðagóða starfsfólk Alþingis. Fyrir það vil ég nú, þegar styttist í að leiðir skilji, þakka skrifstofustjóra þingsins og starfsfólki öllu sérstaklega. Þessar þakkir færi ég ykkur, kæra starfsfólk Alþingis, fyrir okkar allra hönd.

Ég vil að lokum heita á alla viðkomandi að heyja málefnalega og heiðarlega kosningabaráttu á hausti komanda. Megi Alþingi Íslendinga vel farnast, landinu og landsmönnum öllum til heilla um ókomin ár.