152. löggjafarþing — -1. fundur,  23. nóv. 2021.

minnst látins fyrrverandi ráðherra, Jóns Sigurðssonar.

[14:21]
Horfa

Aldursforseti (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Hinn 10. september sl. lést á líknardeild Landspítalans Jón Sigurðsson, fyrrverandi ráðherra og formaður Framsóknarflokksins, eftir löng veikindi.

Jón Sigurðsson var fæddur í Kollafirði á Kjalarnesi 23. ágúst 1946. Foreldrar hans voru Unnur Kolbeinsdóttir kennari og Sigurður E. Ólason hæstaréttarlögmaður. Jón lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1966, B.A.-prófi í íslensku og sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 1969 og doktorsprófi í menntunarfræðum og MBA-prófi frá bandarískum háskólum.

Starfsferill Jóns Sigurðssonar var óvenju fjölbreytilegur. Hann var lektor í íslensku við háskóla í Svíþjóð, skrifstofustjóri Máls og menningar, forstjóri Menningarsjóðs, ritstjóri Tímans, skólastjóri Samvinnuskólans og síðar rektor Samvinnuháskólans, framkvæmdastjóri Vinnumálasambands samvinnufélaganna, seðlabankastjóri, kennari við Háskólann í Reykjavík og er þó ekki allt talið. Jafnframt var Jón formaður, stjórnarmaður eða ráðgjafi margra félaga, samtaka og stofnana á sviði fjármála og viðskipta, heilbrigðismála og menntamála. Eftir Jón liggja fjölmargar bækur, ritgerðir og greinar í blöðum og tímaritum.

Þegar Halldór Ásgrímsson formaður Framsóknarflokksins hvarf af vettvangi stjórnmála 2006 var Jón Sigurðsson kvaddur til starfa í ríkisstjórn og var síðar kosinn formaður Framsóknarflokksins. Hann fór með iðnaðar- og viðskiptamál og varð jafnframt annar tveggja forustumanna ríkisstjórnarinnar. Við alþingiskosningarnar 2007 náði Jón ekki kjöri og fór þá til nýrra starfa á öðrum vettvangi. Hann sat því aðeins eitt þing eftir embættisstöðu sinni sem ráðherra.

Jón Sigurðsson var fjölmenntaður og margfróður maður og bjó yfir mikilli reynslu er hann kom til starfa á Alþingi, góður og sanngjarn í samskiptum við aðra í stjórnmálum, hreinn og beinn, velviljaður og jafnan glaður í bragði. Hann var snjall ræðumaður og vel máli farinn. Svo fór að Alþingi naut krafta Jóns aðeins skamman tíma en hvar sem hann fór munaði um hann í íslensku viðskipta- og menningarlífi.

Ég bið þingheim að minnast Þórunnar Egilsdóttur alþingismanns og Jóns Sigurðssonar, fyrrverandi ráðherra, með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]