152. löggjafarþing — þingsetningarfundur

rannsókn kjörbréfa.

[16:50]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins Íslands eru alþingismenn eingöngu bundnir við sannfæringu sína. Í dag reynir mikið á þetta ákvæði því að umfjöllunarefnið varðar lýðræðið sjálft, fjöreggið sem sýnir vald fólksins í landinu. En umfjöllunarefnið varðar líka fólk, vini okkar og kunningja, fólk í yfirkjörstjórnum, fólk sem tók að sér talningu og ýmislegt annað. Kjósendur gengu til alþingiskosninga þann 25. september síðastliðinn og ég reikna með að þar hafi kjósendur gert ráð fyrir að kosningarnar færu fram eins og lög gera ráð fyrir. Það er mikilvægt að ekki leiki vafi á slíku því að það er mikilvægt fyrir framtíð lýðræðis á Íslandi að hvers konar misbrestur á framkvæmd kosninga sé ekki álitinn smávægilegur að neinu leyti. Kosningalögin setja framkvæmdaraðilum kosninga ýmsar reglur og ef annmarkar eru á framkvæmdinni og ætla má að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninga þá gera lögin ráð fyrir afleiðingum. Verkefni okkar í dag er að fylgja bókstaf laganna og greiða atkvæði um það hvort framkvæmd kosninga í Norðvesturkjördæmi, og svo sem öðrum kjördæmum, hafi verið þannig að við hér inni og kjósendur allir geti treyst því að niðurstaða kosninga sýni hinn lýðræðislega vilja kjósenda. Um það snýst þetta.

Framkvæmd kosninga í Norðvesturkjördæmi bar því miður með sér fjölmarga annmarka. Talningin hófst áður en kjörstaðir lokuðu. Verklag við talningu tók breytingum í miðju verki án þess að öllum sem komu að flokkun og talningu væri það kunnugt. Þá var færslum í gerðabók ábótavant þannig að hvorki voru atvik rituð jafnóðum eins og gera skal né var allt sem ber að færa til bókar fært þangað inn. Já, staðfest hefur verið að gerðabók yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi var a.m.k. að hluta til rituð eftir á og eingöngu undirrituð af oddvita yfirkjörstjórnar.

Við endurtalningu komu fram margvíslegir annmarkar. Oddviti yfirkjörstjórnar var einn á talningarstað um tíma og utan auga myndavéla sem staðsettar eru fyrir utan talningarstaðinn. Þar innan salar mátti hvort tveggja finna blýant og strokleður. Endurtalning hófst án þess að tekin væri um það formleg ákvörðun og áður en talningarfólk og ekki síður umboðsmenn flokkanna mættu á staðinn. Loks voru ekki allir kjörseðlar endurtaldir heldur bara hluti þeirra. Við afhendingu kjörbréfa frá landskjörstjórn gerðist sá óvenjulegi atburður að með kjörbréfum fylgdi bókun landskjörstjórnar þess efnis að vafi væri uppi um að þær tölur sem fengust við endurtalningu í Norðvesturkjördæmi endurspegluðu vilja kjósenda í kjördæminu.

Um hvað snýst þetta allt? Skiptir það einhverju máli, frú forseti, fyrir vægi flokkanna sem eiga sæti á Alþingi? Vægi flokkanna breyttist jú ekkert. Jú, þetta skiptir máli því að það snýst um traust á lýðræðislegum kosningum, traust á lögmæti Alþingis og traust á störfum okkar hér sem fáum þetta verkefni í fangið. Þær reglur við framkvæmd kosninga sem ritaðar eru í kosningalögin eru öryggisreglur til að tryggja að hinn lýðræðislegi vilji kjósenda sé virtur. Þetta er lykilatriði í lýðræðislegum samfélögum, lykilatriði. Þess vegna verðum við að skoða hvað lögin boða og hvernig skal bregðast við ef misbrestur verður á framkvæmdinni. Fyrir liggur niðurstaða rannsóknarlögreglu á Vesturlandi þess efnis að kosningalög hafi verið brotin í veigamiklum atriðum varðandi vörslur kjörgagna. Þetta er staðreynd sem er óumdeild og er hér um að ræða verulegan annmarka á framkvæmd kosninga. Það er staðreynd að gefin hafa verið út sektarboð og staðreynd að varsla kjörgagna var háð verulegum annmörkum, með verulega annmarka, þar sem niðurstöðutölur úr kjördæminu breyttust milli fyrri talningar og endurtalningar á þeim tíma sem vörslur kjörgagna voru ófullnægjandi. Liggur jafnframt fyrir sú staðreynd að óvissa er uppi um hver sé rétt niðurstaða úr kosningunum í Norðvesturkjördæmi. Við einfaldlega vitum ekki hver hinn lýðræðislegi vilji kjósenda í Norðvesturkjördæmi var vegna þess að atkvæði kjósenda í kjördæminu voru ekki meðhöndluð með þeim hætti sem lög kveða á um. Bera kosningalögin með sér að sanna þurfi hvað nákvæmlega gerðist á þeim tíma sem varslan var ótrygg? Er það svo, frú forseti? Nei, svo er ekki, heldur bera þau með sér að ef ætla megi að þessi annmarki hafi áhrif þá skuli ógilda. Þá ítreka ég enn og aftur: Tölurnar breyttust. Tölurnar breyttust á þeim tíma sem varslan var ótrygg. Það er staðreynd og óumflýjanleg staðreynd. Hafði það einhver áhrif? Hafði það áhrif að tölurnar breyttust? Já, það hafði áhrif á veru tíu einstaklinga inni eða fyrir utan Alþingi. Það eru áhrifin.

Við vitum ekki og getum líkast til aldrei komist að því hvort og þá hvað átti sér stað milli þess sem tölur eru lesnar upp um kl. 7 að morgni sunnudagsins 26. september og þar til talningarfólk fer að mæta á talningarstað á sunnudeginum. Það veit heldur ekki það fólk sem valið var til að fylgjast með talningu í Norðvesturkjördæmi af hálfu framboðanna af því að þau voru hreint ekki á staðnum. Talað var um að talning myndi hefjast kl. 3 á sunnudeginum, en svo var ekki heldur hafði yfirkjörstjórn ekki fylgt því grundvallarskilyrði að bíða eftir annars vegar talningarfólki og hins vegar umboðsmönnum framboðanna. Það er grundvallarskilyrði í kosningalögunum að vitni séu að talningu. Reyndar var það grundvallarskilyrði heldur ekki virt við fyrri talningu af því að fyrsta talning hófst áður en kjörstöðum var lokað. Það er líka brot á kosningalögum, frú forseti.

Í lögum um alþingiskosningar segir að ef gallar eru á kosningum sem ætla má að hafi áhrif á úrslit kosninga skuli Alþingi gera kosninguna ógilda og þá skuli ný kosning fara fram í kjördæmi ef kosning heils lista er ógild. Hér í dag hefur verið talað um að ekki sé vissa fyrir því hvað nákvæmlega olli því að atkvæðatölurnar breyttust og því sé ekki tækt að ógilda kosningarnar. Hér er, frú forseti, verið að beita öfugri sönnunarbyrði, eins og hefur verið fjallað um í dag, þar sem þeir, sem benda á þá verulegu annmarka sem uppi voru á framkvæmdinni og þá verulegu óvissu sem uppi er um lýðræðislegan vilja kjósenda kjördæmisins, eiga að sanna hvað nákvæmlega gerðist. Það eru þeir sem eiga að sanna hvað nákvæmlega gerðist þegar atkvæðatölurnar breyttust á þeim tíma þegar vörslurnar voru ófullnægjandi. Hér er verið að óska eftir að beitt verði meginreglu sakamálalaga um sakleysi uns sekt er sönnuð, sem hvergi er getið í kosningalögunum, hvergi. Þar er hvergi gerð slík krafa né hafa þeir dómstólar, þar á meðal Hæstiréttur, sem fjallað hafa um kosningar til þessa dags gert einhverja slíka kröfu. Það þarf ekki að færa sönnur á hvað nákvæmlega gerðist. Það þarf bara að vera að þetta hafi haft áhrif, að ætla megi að þetta hafi haft áhrif á niðurstöðuna. Þetta snýst um lög. Þetta snýst líka um ásýnd og traust kjósenda og framkvæmd og að hún hafi verið með fullnægjandi hætti. Þar liggur sönnunarbyrði stjórnvalda og í dag Alþingis, að færa sönnur á að niðurstöður sýni með óyggjandi hætti lýðræðislegan vilja kjósenda. Slíku er ekki fyrir að fara í áliti meiri hluta kjörbréfanefndar, þvert á móti, og mun ég því ekki geta stutt þá tillögu sem þar er borin fram.

Þá langar mig aðeins að víkja að tillögu hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar sem lengst gengur, að kosningarnar í heild sinni verði ógiltar og kjörbréf allra 63 þingmanna því ekki staðfest. Um þetta vil ég segja að ég get heldur ekki stutt þá tillögu af þeirri einföldu ástæðu að kosningalög heimila ekki að kosningar í öðru kjördæmi en því þar sem annmarkar voru verulegir á framkvæmd kosninga séu ógiltar. Það er grundvallaratriði í lýðræðislegum kosningum að niðurstaða kosninga sem fram fara með fullnægjandi hætti standi og að hvorki Alþingi né mögulega aðrir hlutist til um ógildingu þeirra. Kjósendur verða að treysta því að niðurstaða haldi og annað er að mínu mati hættulegt lýðræðinu. Þess vegna get ég ekki stutt tillögu um ógildingu í kjördæmunum fimm.

Frú forseti. Að lokum vil ég taka það fram að afstaða mín sem heyrst hefur hér í dag byggist á köldu mati á aðstæðum og framkvæmd kosninga, köldu mati á innihaldi kosningalaga en ekki afstöðu minni til þess fólks sem ýmist var inni eða úti af þingi eða þess fólks sem starfaði við kosningarnar í Norðvesturkjördæmi. Það hefur aðeins örlað á því að hér sé verið að væna þá sem telja slíka annmarka á kosningunum að það verði að ógilda þær um að vega á einhvern hátt að heiðri þess fólks sem kom að kosningunum. Það er ekki svo. Við hér getum ekki látið afstöðu okkar í þessu máli miða við tilfinningar okkar gagnvart persónum og leikendum. Hlutverk okkar er mun mikilvægara en svo. Við á Alþingi verðum að meta aðstæður með öllu óháð þeim tilfinningum sem við kunnum að hafa gagnvart því fólki sem vann við kosningarnar eða því fólki sem var í framboði. Annmarkarnir voru verulegir og má ætla að framkvæmdin og þeir annmarkar sem voru á framkvæmdinni hafi haft áhrif á niðurstöður kosninga í Norðvesturkjördæmi og ber því með vísan í 3. mgr. 120. gr. kosningalaga að ógilda kosningarnar.