152. löggjafarþing — þingsetningarfundur

rannsókn kjörbréfa.

[17:17]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég vil einnig óska eftir því að hv. þingmaður leggi mér ekki orð í munn varðandi sakfellingu í garð starfsfólks í Borgarnesi. Það hef ég ekki gert. Ég hef ekki verið að sakfella þau um neitt. Ég er að tala um vafa. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að það er ekki sakfellt í sakamálum varðandi eitthvað sem ætla megi. Ég var að benda á að það liggur fyrir að kosningalög hafi verið brotin við framkvæmd þessara kosninga í Norðvesturkjördæmi og það var niðurstaða lögreglurannsóknar hjá lögreglunnar á Vesturlandi að svo hafi verið og þess vegna voru gefin út sektarboð.

Varðandi fullyrðingar hér og í fjölmiðlum um að annmarkar hafi verið slíkir að ætla megi að þeir hafi haft áhrif á niðurstöðuna þá vísa ég í ítarlega greinargerð undirbúningskjörbréfanefndar sem tilgreinir fjölda annmarka sem voru á framkvæmd kosninganna. Talning hófst áður en kjörstaðir lokuðu. Endurtalning var á hluta atkvæða en ekki allra. Umboðsmenn framboðanna voru ekki á staðnum, hvorki við fyrri né seinni talningu. Það kallast verulegur annmarki og hefur Hæstiréttur fjallað um það, þann verulega annmarka. Vörslurnar voru með öllu ófullnægjandi og teljast það líka verulegir annmarkar á framkvæmd kosninga. Þetta er óumdeilt, frú forseti, þetta er óumdeilt og er ekki rangfærsla heldur staðreynd. Og allir sem sátu í undirbúningskjörbréfanefnd (Forseti hringir.) utan einn rituðu undir að þetta hafi verið svona og eru þá ótaldir fjölmargir aðrir annmarkar.