152. löggjafarþing — þingsetningarfundur

rannsókn kjörbréfa.

[21:22]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Það kann að líta skringilega út að hafna kjörbréfum þessara þingmanna en ég er að greiða atkvæði um ógildingu kosningar í Norðvesturkjördæmi. Afleiðing þess er vissulega sú að kjörbréfin myndu teljast ógild en svona liggur valið fyrir framan okkur, það er ekkert um annað að ræða. Það hryggir mig pínulítið að alltaf þegar það verður eitthvert klúður er aldrei gert neitt í því. Það þarf alltaf að draga lærdóm af því og gera kannski betur næst. En það er hluti ástæðunnar fyrir því að það er alltaf verið að gera mistök aftur og aftur, af því að það eru aldrei neinar afleiðingar. Í þessu tilfelli er það mjög skýrt að ef það er galli sem hefur áhrif á niðurstöðu kosninga skiptir ekki máli hvort það sé orsakasamhengi eða eitthvað því um líkt. Það er ekki það sem við erum að leita að. Það var galli. Við vitum ekki af hverju, nákvæmlega hvers vegna sá galli hafði áhrif, eins og kom fram í máli annarra þingmanna. Við getum ekki fullvissað okkur um það og þar af leiðandi á að ógilda kosningar. Það er ekki flóknara en það af því að grunnforsendan er að sannreyna.