152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[14:14]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því að hv. þingmaður talaði um loftslagsvána og afneitar henni sannarlega ekki. Mig langar til að spyrja þingmanninn hvort hún telji, í ljósi loftslagsbreytinga og annarra samfélagsbreytinga og breytinga á heiminum sem við horfum fram á á næstunni, að forsendur hagkerfis okkar og fjármálakerfis standist. Það sem ég á við er akkúrat það sem þingmanninum varð tíðrætt um, þ.e. að kerfið lítur á fólk sem einskis virði á meðan það er ekki vinnandi. Mig langar að spyrja þingmanninn: Hvað er mannauður? Er það bara vinnandi manneskja? Væri ekki nær að við myndum finna leið til að byggja upp samfélag þar sem vinna er eitthvað sem fólk kýs að gera, velur að gera ef það hefur tök á og vilja til en að enginn þurfi að vinna til að tryggja lífsafkomu sína?