152. löggjafarþing — 5. fundur,  4. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[12:58]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætlaði nú ekki að æsa ráðherrann upp í heitar umræður um stjórnkerfisbreytingar en það er ágætt að rifja upp að ástæðan fyrir því að ráðuneytum var fækkað og þau efld var að í rannsóknarskýrslu Alþingis var hvatt til þess vegna þess að ráðuneytin tólf sem voru fyrir hrun voru bara ekki þess megnug að sinna sínu hlutverki. Það var skortur á faglegri og pólitískri stefnumörkun. Auðvitað má velta því fyrir sér hvort akkúrat útfærslan á velferðarráðuneyti hafi verið rétt eða ekki, en það að vera að tálga þetta endalaust í sundur og vera aftur komin í tólf ráðuneytakapalinn þar sem einhver þeirra verða óburðug örráðuneyti er afturhvarf til fortíðar, afturhvarf sem ég hefði reyndar ekki haldið að myndi gerast á vakt Vinstri grænna miðað við hvernig ráðherrar þess flokks töluðu á kjörtímabilinu 2009–2013. Þá sagði t.d. núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að þetta væri bara einn af grundvallarþáttum í velferð þjóðarinnar, þær stjórnkerfisbreytingar sem ráðist var í.

En gott og vel. Af því að það er langt síðan að ég bar upp spurningar mínar til hæstv. ráðherra þá fæ ég kannski að endurtaka þær, hafi hann gleymt þeim í millitíðinni. Í fyrsta lagi: Hvers vegna sjáum við ekki aukinn metnað endurspeglast í auknum framlögum til loftslagsmála í fjárlagafrumvarpinu frá því sem lá fyrir í fjármálaáætlun? Mun ráðherra gera tillögu um slíka aukningu milli umræðna? Mun ráðherra fylgja eftir markmiðum stjórnarsáttmálans með því að koma með tillögu að lögfestingu á 55% af markmiðinu og hvenær megum við eiga von á uppfærðri aðgerðaáætlun í loftslagsmálum?