152. löggjafarþing — 5. fundur,  4. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[13:00]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hvernig menn geta komist að þeirri niðurstöðu að rannsóknarskýrsla Alþingis, sem fjallaði um fjármálahrunið, kæmist að þeirri niðurstöðu að það þyrfti að sameina heilbrigðisráðuneytið og félagsmálaráðuneytið er mér fullkomlega hulin ráðgáta. Ég man ekki eftir heilbrigðiskafla í rannsóknarskýrslunni eða hvað væri að almannatryggingakerfinu, ég man ekki eftir því. Kannski er það þarna einhvers staðar, en það segir kannski eitthvað um það hversu galnar þessar breytingar voru að menn noti þetta sem röksemd í málinu. Þetta stenst nákvæmlega enga skoðun, trúðu mér, því að ég reyndi að ræða heilbrigðismál í þeim kosningum sem fóru fram eftir fjármálahrunið og það var ekki mikill áhugi á því og ég man ekki eftir neinum einasta manni neins staðar, og mikið var sagt, sem sagði að vegna þess að heilbrigðisráðuneytið væri svo veikt eða félagsmálaráðuneytið þá hefði hér orðið fjármálahrun. Það stenst enga skoðun, virðulegi forseti.

Varðandi þessar stóru spurningar sem hv. þingmaður kemur með hér þá hef ég sagt það áður, og við munum vonandi ræða það bæði hér í þessum sal og annars staðar, að hér er auðvitað gríðarstórt verkefni sem er mjög mikilvægt að allir komi að. Þetta verður ekki gert af einu ráðuneyti og ekki einu sinni þótt það myndi nást fullkomin sátt þingsins, þetta er verkefni sem varðar alla hagaðila, efnahagslífið, atvinnulífið. Ég hlakka til þessa verkefnis og ég er algerlega meðvitaður um hversu stórt það er þannig að varðandi allar útfærslur, hvort sem það eru fjármunir eða annað slíkt, tel ég harla ólíklegt að við höfum, í því sem við erum búin að leggja upp, náð fullkomnun í þeim áætlunum sem þar eru á þessu stigi. Þannig að ég áskil mér allan rétt til að koma með breytingar. Varðandi einstaka útfærslur þá ætla ég ekki að úttala mig um það núna, enda verða fleiri að koma að því heldur en bara ráðherra og eitt ráðuneyti.