152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

leiðrétting á kjörum öryrkja.

[13:05]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir að vekja máls á mjög mikilvægu efni. Ég hlýt nú að benda á það í upphafi að þó að afkoma ríkissjóðs sé betri, sem við fögnum öll og má m.a. rekja til þess að þær aðgerðir sem stjórnvöld réðust í, bæði hvað varðar efnahag og samfélag, skiluðu þeim árangri að við erum að sjá mun betri afkomu en reiknað var með, þá gera áætlanir eigi að síður ráð fyrir tæplega 170 milljarða kr. halla á rekstri ríkisins á þessu ári. Sú staðreynd hefði einhvern tímann þótt sláandi, en vegna þess að við höfum tekið þá ákvörðun að við ætlum að vaxa út úr þessari kreppu, að við nálgumst hana af ákveðnu æðruleysi, þá sjáum við um leið ekki verulega aukningu á útgjöldum í þessum fjárlögum vegna þess að við erum að gefa okkur tíma til að vaxa út úr kreppunni til aukinnar velsældar.

Hvað varðar örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega sérstaklega þá er það rétt sem hv. þingmaður bendir á að greiðslur til þeirra taka sérstakri prósentsviðbótarhækkun umfram 4,6%, sem er þá viðbótarhækkun upp á 800 millj. kr. Á síðasta kjörtímabili, þó að við ætlum ekki að dvelja við það, vörðum við 4 milljörðum kr. í að bæta kjör örorkulífeyrisþega og þeim var fyrst og fremst varið í það verkefni að draga úr skerðingum sem hefur verið eðlilegt baráttumál talsmanna þessa hóps.

Ég vil segja það hér að að sjálfsögðu er þetta bara fyrsta skrefið af mörgum en mikilvægasta verkefnið þegar kemur að örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegum er að endurskoða kerfið. Því var ekki lokið á síðasta kjörtímabili. Því verkefni verðum við að ljúka á þessu kjörtímabili til að gera þetta kerfi réttlátara og gagnsærra og tryggja afkomu ekki síst þeirra sem höllustum fæti standa, en framkalla líka rétta hvata til aukinnar virkni og þátttöku þeirra sem það geta. Þetta er verkefnið sem við stöndum frammi fyrir. Ég treysti á það að nýr félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra muni eiga gott samráð við Alþingi um þetta verkefni því að við erum búin að ræða það í óteljandi skipti hér í þingsal. Ég er alveg viss um að við getum náð samstöðu um þetta mikilvæga verkefni.