152. löggjafarþing — 7. fundur,  8. des. 2021.

velferð dýra.

15. mál
[17:14]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir framsöguna og langar að varpa til hennar nokkrum spurningum í framhaldinu og ætla síðan að koma í ræðu hér á eftir. Hv. þingmaður fór vítt og breitt yfir þennan iðnað og lýsti þessu nokkuð hraustlega í mörgum atriðum. En áður en lengra er haldið vil ég bara taka fram að það sem við sáum í myndbandi frá erlendum dýraverndarsamtökum er með öllu ólíðandi hvað það varðar hvernig þarna er komið fram. Þá á ég við aðbúnað og hvernig er gengið um hrossin meðan á þessu stendur öllu saman. En mig langar að fá að vita það hjá hv. þingmanni hvort það sé þannig að flutningsmenn séu á þeirri skoðun að þetta sé viðgengin venja, það sem við sáum í myndbandinu frá þessum erlendu dýraverndarsamtökum, hvernig um hrossin var gengið og aðbúnaðurinn sem þeim var veittur í kringum þetta allt saman, hvort það sé þannig að við getum sett alla þessa 119 bændur í sama flokk, þann eina sem þarna var sýndur.