152. löggjafarþing — 7. fundur,  8. des. 2021.

velferð dýra.

15. mál
[18:44]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka andsvarið. Varðandi spurningu hv. þingmanns um kúasæðingar þá hef ég ekki myndað mér skoðun á því, ég hef ekki skoðað það mál. Ég geri mér fulla grein fyrir þeim tæknibreytingum og tækni sem fara að koma í landbúnaði. Ég sá grein í New York Times, ég keypti mér blaðið þegar ég var erlendis, ég get sýnt honum það, að fjórða iðnbyltingin, upplýsingabyltingin, sé algerlega komin í landbúnaðinn. Ég vona að íslenska ríkið og Alþingi veiti fé til þessa. Það eru gríðarleg tækifæri í íslenskum landbúnaði. Ferðamenn, kannski gerum við okkur ekki grein fyrir því, um hvað tala þeir alltaf? Jú, það er svo æðislegur matur á Íslandi, frábær matur á Íslandi. Af hverju? Af því að það er ekki búið að iðnvæða íslenska matvælaframleiðslu. Hún er enn þá mjög náttúrleg, ef við getum kallað hana það. Það eru alveg gríðarleg tækifæri sem Ísland hefur sem matvælaframleiðsluland. En í þessu máli, bara í þessu máli — ég er ekki að tala um að fara síðan út um allar koppagrundir og banna allt — erum við með löndum sem við eigum ekki að vera í klúbbi með. Þetta eru fátæk ríki, þar sem ríkir mikil fátækt, Úrúgvæ og Argentína. Í Argentínu býr einn þriðjungur þjóðarinnar við fátækt eða meira, tveir þriðju, ég man ekki hverjar síðustu tölur eru. Rússland og Mongólía og Kína. Við erum bara ekki á þessum stað sem þróað samfélag, ekki á nokkurn hátt.

Mig langar að lokum að benda á að það er ekkert ólíklegt að Evrópusambandið banni þetta. Þá mun koma tilskipun, send til Íslands frá sameiginlegu nefndinni, til Alþingis með stjórnskipulegum fyrirvara, þar sem þess verður krafist að við bönnum þetta, sama spurning verði lögð upp. Hver verður þá afstaða Alþingis Íslendinga þegar búið er að hafna þessu frumvarpi? Ég tel miklu farsælla að vera á undan bylgjunni og banna þetta núna og það eru sterk rök fyrir því að gera það.