152. löggjafarþing — 8. fundur,  9. des. 2021.

aðgerðir gegn kynferðisbrotum og aukinn stuðningur við þolendur.

16. mál
[15:17]
Horfa

Flm. (Gísli Rafn Ólafsson) (P):

Frú forseti. Mér var nauðgað — það eru þrjú orð sem ekkert foreldri er búið undir að heyra 14 ára barn sitt segja í gegnum tárin. Klukkutíma síðar, eftir að hafa tilkynnt brotið og gefið fyrstu skýrslu, óraði okkur foreldrana hins vegar aldrei fyrir því hversu langt það ferli yrði að fá réttlætinu fullnægt. Meira en ári síðar barst málið fyrst til saksóknara og það var ekki fyrr en fimm árum eftir atburðinn að hinn seki var loksins dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir það brot sitt að nauðga barni. Á þeim tíma kom í ljós að dóttir okkar var ekki sú eina sem hann hafði brotið á heldur voru brotin a.m.k. níu talsins. Flest þeirra framin á þessum fimm árum sem dóttir okkar beið eftir réttlætinu. Aðeins eitt annað mál gegn honum fór í ákæruferli og var refsing þar milduð í Hæstarétti svo hann gæti klárað að sitja inni samhliða refsingunni fyrir að nauðga dóttur minni.

Því miður er saga dóttur minnar ekkert einsdæmi og á hverju ári lenda hundruð einstaklinga í svipaðri lífsreynslu og aðeins fáir þolendur upplifa það að sjá réttlætinu fullnægt. Þrátt fyrir mikið átak í þessum málum árið 2018, eftir að hin svokallaða #metoo-bylting gekk yfir í fyrsta skipti, er enn langt í land að málsmeðferðartími þessara mála sé viðunandi og að sú vinna sem lögð er í rannsóknir málanna sé fullnægjandi. Þetta á því miður sérstaklega við um mál hér á höfuðborgarsvæðinu. Með þingsályktunartillögu þessari eru lagðar til nokkrar viðamiklar og metnaðarfullar aðgerðir sem geta orðið framfaraskref í að efla meðferð kynferðisbrota í réttarkerfinu og vinna þannig gegn kynferðisbrotum og efla stuðning við þolendur þeirra.

Í fyrsta lagi er lagt til að grípa til sérstakra aðgerða til að efla starfsemi lögreglu og ákæruvalds þegar kemur að rannsókn kynferðisbrotamála. Forsenda þess að hægt sé að rannsaka kynferðisbrotamál fyllilega og með viðunandi málsmeðferðartíma er að nægur mannafli sé til staðar hjá lögregluembættum. Það er því nauðsynlegt að auka fjármagn til lögreglunnar, sérstaklega í þeim tilgangi að fjölga starfsfólki sem sér um rannsókn kynferðisbrota. Í slíkri vinnu verður það að vera sjálfstætt markmið að stytta málsmeðferðartíma samhliða því að gæði rannsóknarinnar eru tryggð. Þá er einnig lagt til að ráðist verði í sérstaka styrkingu á meðferð kynferðisafbrota hjá saksóknaraembættum, þ.e. hjá héraðssaksóknara og ríkissaksóknara.

Fyrirliggjandi gögn benda til þess að ákærur séu aðeins gefnar út fyrir einn af hverjum tíu sem er grunaður um brot og að raunverulegt sakfellingarhlutfall geti jafnvel verið svo lágt sem 3%. Lágt sakfellingarhlutfall kann að einhverju leyti að ráðast af núverandi lagaramma en í ljósi þess að einungis er gefin út ákæra á hendur um tíunda hverjum grunaða verður að spyrja sig hvort störf handhafa ákæruvalds séu raunverulega með þeim hætti að hámarka líkur á því að gerendur sæti refsiábyrgð vegna brota sinna og að markmiði um réttlæti sé náð. Stuðla verður að bættri málsmeðferð, t.d. með styttingu málsmeðferðartíma og ítarlegri yfirferð kærðra brota með auknu fjármagni til að styrkja mannafla embættanna.

Frjáls félagasamtök gegna afar mikilvægu hlutverki þegar kemur að stuðningi við þolendur kynferðisbrota. Mikið af þeim framförum sem hafa orðið í málaflokknum á undanförnum árum og áratugum urðu að frumkvæði grasrótarsamtaka og annarra hagsmunaaðila utan stjórnvalda. Sem dæmi má nefna Stígamót, Samtök um kvennaathvarf, Barnaheill, Drekaslóð, Rótina og Rauða krossinn. Framlag þessara frjálsu félagasamtaka er óumdeilanlegt og þáttur þeirra í baráttunni gegn ofbeldi afar mikilvægur. Flutningsmenn telja því nauðsynlegt að standa betur vörð um starfsemi þeirra. Algengt er að slík samtök séu rekin annars vegar á frjálsum framlögum og hins vegar styrkjum ráðuneyta, sveitarfélaga og annarra opinberra aðila. Því telja flutningsmenn nauðsynlegt að ráðherra kortleggi hvaða þjónusta er veitt af hvaða samtökum og finni leiðir til að tryggja starfsemi þeirra áfram með því viðbótarfjármagni sem nauðsynlegt er fyrir rekstur þeirra.

Til viðbótar við tafarlausar aðgerðir til að tryggja bætta meðferð kynferðisbrota í réttarkerfinu verður einnig að líta til þess hvernig haga megi stefnumótun til framtíðar svo hún taki mið af raunverulegri stöðu hvað upplifun þolenda varðar og hversu vel réttarkerfið skilar tilætluðum árangri. Í því verður þannig að felast athugun á tímalengd rannsókna í kynferðisafbrotum og kortleggja verður leiðir til að stytta þær rannsóknir. Þá verði litið til þess hvert núverandi hlutfall niðurfelldra mála er, beiting refsilækkunarákvæða og þróun á þyngd dóma. Þá verði ráðherra einnig að taka til skoðunar öll önnur þau atriði sem geta haft áhrif á hversu áhrifaríkt réttarkerfið raunverulega er.

Við könnun á beitingu refsilækkunarástæðna verður sérstaklega að kanna hversu oft 204. gr. almennra hegningarlaga er nýtt til refsilækkunar og hvort ástæða sé til að endurskoða ákvæðið með tilliti til alvarleika brotanna og takmarkaðra fælingaráhrifa refsinga þegar hægt er að beita málsvörn með tilvísun í þá grein. Fyrir ykkur sem ekki vitið hvað 204. gr. fjallar um þá er hún um það hvort viðkomandi hafi vitað hvort um barn er að ræða eða ekki. Einnig verður að taka til gagngerrar skoðunar hvernig bæta megi réttarstöðu þolenda almennt. Í því felst m.a. að setja lög um aðild þolenda að eigin máli þannig að þolendur hafi þau auknu réttindi sem aðilar máls hafa án þess að þurfa að höfða einkamál á hendur geranda sínum. Þá verður hlutverk réttargæslumanna tekið til skoðunar og kannað hvernig megi efla stuðning réttargæslumanna við þolendur, t.d. með því að auka tímafjölda sem réttargæslumenn fá endurgreidda vegna þjónustu við brotaþola og með því að auka aðkomu réttargæslumanna að meðferð dómsmála á öllum stigum. Þá verði bætur til þolenda kynferðisbrota einnig tryggðar, m.a. með aðkomu ríkissjóðs.

Ég er mjög þakklátur meðflutningsmönnum mínum og öðrum hv. þingmönnum sem komið hafa að máli við mig um þetta mál. Sá stuðningur, þvert á hið pólitíska litróf Alþingis, sendir mikilvæg skilaboð út í samfélagið um stuðning við þá ósk okkar að hæstv. ráðherra undirbúi og komi í framkvæmd sértækri aðgerðaáætlun gegn kynferðisbrotum með því markmiði að auka stuðning við þolendur þeirra. Við teljum mikilvægt að við undirbúning aðgerðaáætlunarinnar hafi hæstv. ráðherra samráð við hagsmunasamtök þolenda og jaðarsettra hópa, fulltrúa úr fræðasamfélaginu, lögregluembætti, saksóknaraembætti, fulltrúa bráðamóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis og aðra þá sem ráðherra telur rétt að hafa samráð við. Það er von okkar að hæstv. ráðherra kynni Alþingi tilbúna og tímasetta aðgerðaáætlun eigi síðar en við lok vorþings 2022.