152. löggjafarþing — 8. fundur,  9. des. 2021.

ráðstöfun útvarpsgjalds.

129. mál
[16:57]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vildi gjarnan koma hingað upp til að taka undir að það á auðvitað að leita allra leiða til að hafa umhverfi fjölmiðla á Íslandi sem skilvirkast. Það á ekki að kaffæra það með einhverju reglufargani. Og það er auðvitað með eftirlit þarna eins og alls staðar annars staðar að það á ekki að vera of íþyngjandi eða að búa til einhverja óþarfa skriffinnsku sem tekur þá fjármagn og súrefni frá miðlunum sem betur væri varið í einhvers konar dagskrárgerð.

En við hljótum að taka hliðsjón af því í umræðunni að þetta er ekki einhver séríslenskur vandi þótt til viðbótar komi auðvitað fámenni samfélagsins inn í breytuna hér. Miðlar úti um allan heim eru að reyna að fóta sig í breyttum tækniheimi þar sem tekjumódel miðlanna hafa hrunið og annað. Þetta er auðvitað bara verkefni sem við erum með í höndunum og ég tek svo innilega undir það að við eigum að hafa alla anga úti til að reyna að hafa regluverkið og umhverfi þannig að það virki ekki hamlandi eða kostnaðaraukandi að einhverjum óþarfa. En með því er ég ekki að segja að það eigi ekki að vera einhvers konar aðhald með fjölmiðlum.

Mig langar líka að minna á það í þessu samhengi að við megum ekki — og ég er ekki að halda því fram að hv. þingmaður hafi verið að því, ég er bara að tala almennt — falla í þá gryfju að fara að flokka fjölmiðla sem litla eða veikburða sem ekki skipti máli á móti stórum, ábyrgum miðlum og eitthvað þess háttar. Þetta er allt hluti af keðju sem skiptir máli. Það sem mér finnst kannski léttvægt og lítilvægt er stórmál fyrir einhvern annan. Lifandi og dínamískur fjölmiðlamarkaður þar sem menn geta vonandi í framtíðinni rekið miðlana þannig að þeir standi undir sér er markmið sem við hljótum að horfa á hvað varðar fjölmiðlamarkaðinn eins og alla aðra atvinnustarfsemi og allt annað sem við erum að gera hér þegar við ræðum málin á þingi.