152. löggjafarþing — 8. fundur,  9. des. 2021.

ráðstöfun útvarpsgjalds.

129. mál
[17:00]
Horfa

Flm. (Bergþór Ólason) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka andsvarið. Ég vona að það hafi ekki misskilist hjá mér þegar ég vísaði til litlu miðlanna, þeir eru einmitt hluti af þessari keðju. En punkturinn hjá mér var sá að við mættum ekki búa til eitthvert íþyngjandi regluverk sem væri rökstutt með því að það þyrfti sérstaklega að vakta einhverja slíka miðla. Það var sá punktur.

Síðan lýsi ég ánægju minni með afstöðu hv. þingmanns hvað það varðar að einfalda rekstrarumhverfi og regluverk miðlanna og að við þurfum að hafa alla anga úti til að bæta rekstrarskilyrði sérstaklega einkamiðlanna. Ég hef verið þeirrar skoðunar, til viðbótar við það sem ég nefndi áðan sem dæmi, að við eigum að skoða það mjög ákveðið að finna leiðir til að skattleggja t.d. þessar netauglýsingar. Ég held að það hafi verið rétt sem fram kom hjá hv. þingmanni, að auglýsingar sem fara frá Ríkisútvarpinu, ef svo má segja, ef þeim reglum verður breytt, muni ekki skila sér allar til innlendra fjölmiðla. Það blasir við. Við þekkjum það öll sem fylgjumst með fjölmiðlum og internetinu og þessum samfélagsmiðlum. Ég held að við ættum að fara í þá vegferð, einhverjar þjóðir eru byrjaðar að skoða þetta og við eigum að vera á þeim vagni sem er fremstur í röðinni þar og vera alveg óhrædd við það. Við erum með best tengdu þjóðum heims. Hér er netlæsi gott og við erum í fullum færum til þess að setja hér regluverk sem gæti skipt máli í þessum efnum.