152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

friðun Dranga í Árneshreppi.

[15:37]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnirnar. Hv. þingmaður vakti athygli á þessu máli í síðasta fyrirspurnatíma sem ég var í. Í kjölfarið kallaði ég eftir upplýsingum um þessa friðlýsingu og sendi á formann hv. umhverfis- og samgöngunefndar og ég vænti þess og veit raunar að það fór áleiðis á hv. nefndarmenn. Öllum þeim spurningum sem hv. þingmaður eða aðrir hafa út af þessu máli er sjálfsagt að svara. Ég held að það fari betur á því að við fáum þær spurningar sem komið hafa fram og svörum þeim efnislega. En hins vegar þegar kemur að þessum friðlýsingum liggur alveg fyrir, og þá er ég ekki bara að tala um þessa jörð, að það er eitt af því sem við þurfum að ræða. Við erum búin að friðlýsa mjög stóran hluta af landinu, ætli það sé ekki hátt í einn þriðji af landinu, eitthvað slíkt. Þetta eru orðin 32 svæði. Það varðar auðvitað alla hvernig farið er með þessi mál.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhugann á þessu máli og mun reyna að upplýsa hann og aðra eins vel og ég get um einstaka þætti þess því að það er auðvitað mjög mikilvægt að allir séu meðvitaðir um hvað þarna er á ferðinni. En hins vegar þegar kom að þessu máli, eins og hv. þingmaður veit, af því að ég veit að hv. þingmaður hefur lesið minnisblaðið, þá hófst þetta ferli 2018, ef ég man rétt, og ég get ekki séð annað en að búið sé að fara í gegnum mjög ítarlegt ferli eftir þeim reglum sem eru um þessa hluti. En ef það eru einhverjar fleiri spurningar varðandi þetta er sjálfsagt að reyna að svara þeim eins fljótt og auðið er.