152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu árið 2022.

166. mál
[16:14]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta og hið hefðbundna samtal við þingið þegar kemur að Færeyingum. Mig langaði að forvitnast hjá hæstv. ráðherra hvort fyrirhugaðar séu einhverjar breytingar á fyrirkomulaginu í samskiptum við Færeyinga. Hvort það sé eitthvað í farvatninu, að við séum að ná saman um önnur mál sem við höfum ekki náð saman um hingað til, eins og til að mynda í síldinni og að mig minnir kolmunnanum. Eru einhverjar breytingar sem myndu hafa áhrif á þennan samning okkar við Færeyinga? Ég geri mér grein fyrir því að hæstv. ráðherra er ekki búinn að vera lengi í ráðuneytinu. Ég sætti mig alveg við að ráðherra fari yfir málið á handahlaupum. Mig langar einfaldlega að forvitnast um hvort það sé eitthvað í pípunum um að samskipti við Færeyinga, sem eru gríðarlega mikilvæg fyrir okkur — það skiptir okkur máli að vera í góðum samskiptum við þessa miklu og mikilvægu grannþjóð okkar, systurþjóð, en engu að síður eru þarna líka harðkjarnahagsmunir þeirra og okkar í húfi. Megum við vænta einhverra breytinga á fyrirkomulaginu í samningum við Færeyinga?