152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum.

151. mál
[17:44]
Horfa

innanríkisráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni fyrir þessar vangaveltur og spurningar. Já, það er alveg hárrétt sem hér er tekið fram og ég get verið sammála hv. þingmanni í því að auðvitað er ástæða fyrir okkur til að horfa enn frekari til rafræns Íslands og stafrænna umbyltinga á þessu sviði. Það er reyndar vinna sem er búin að vera í gangi í nokkur ár undir forystu hæstv. fjármálaráðherra og með miklum árangri sem birtist okkur bara í okkar daglega lífi í á vefnum island.is og Heilsuveru og öllu því sem er verið að innleiða. Þannig að við erum sannarlega á réttri leið. Vissulega hefur þetta kennt okkur hér í þinginu ný vinnubrögð sem ég tel að séu komin til að vera til frambúðar. Þegar fólk utan af landi þarf að koma sem gestir á nefndarfundi þá þarf það til að mynda ekki að ferðast lengur um langan veg heldur mun það geta tekið þátt í þeim fundum heiman að frá sér og það mun spara bæði fé, tíma og fyrirhöfn.

Við erum á þessari vegferð, hún tekur auðvitað tíma í stóru umhverfi og það má segja að Covid hafi ýtt við okkur til að gera þetta jafnvel enn hraðar. Það er því alveg ljóst að við erum á þessari vegferð með embætti ráðuneytisins, við munum halda áfram á þeirri vegferð og margt er að koma þar inn sem verður til lengri tíma. En auðvitað verður síðan að ná utan um það í einhverri heildarlöggjöf að heimila þessar breytingar. Það er mikil vinna sem þarf að fara fram í því sem þarf að taka tillit til allra þessara þátta.

Varðandi húsnæðismálin fyrir Landsrétt þá er unnið að því að koma öllum dómstigum í nýtt húsnæði. Lagt er til í skýrslu sem fjármálaráðuneytið lét gera að Hæstiréttur verði fluttur í Safnahúsið, (Forseti hringir.) Landsréttur í húsnæði Hæstaréttar og að nýtt húsnæði verði fundið fyrir héraðsdómstóla.