152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum.

151. mál
[18:02]
Horfa

innanríkisráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það kom náttúrlega fram í ræðu minni áðan og í því sem ég hef verið að segja hér að við erum að horfa til framtíðar. Það var við neyðaraðstæður sem menn fóru að stíga skref í tilraunaskyni til að auka skilvirkni, til að ná meiri árangri, til að geta þjónað betur þeim sem við eigum að þjóna. Reynslan af því er ekki bara hjá okkur, hún er út um allt. Og hún hefur sýnt okkur að við erum að fara að stíga varanleg skref í þessum málum, gera varanlegar breytingar. Sú stefnumörkun var reyndar tekin fyrir nokkrum árum og hefði væntanlega haft lengri aðdraganda ef þetta ástand hefði ekki skapast. Ég held að það sé ekkert tiltökumál og að það sé alls ekki verið að klæða málið í einhvern Covid-búning þó að við segjum að ástæða sé til að framlengja þetta til þriggja ára. Ég held að þar sé bara verið að búa til svigrúm einmitt til að (Forseti hringir.) geta fylgt eftir, kannski af meiri hraða, þeirri stefnumörkun, þó í skjóli bráðabirgðabreytinga á lögum, til að geta útbúið(Forseti hringir.) heildarlög í ljósi þeirrar reynslu sem er að safnast í bankann á hverjum degi hjá okkur.