152. löggjafarþing — 12. fundur,  16. des. 2021.

forgangsröðun ríkisútgjalda.

[14:14]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég fagna allri umræðu um ríkisfjármálin og ég er sammála hv. þingmanni um það að við þurfum að hafa hemil á útgjaldaþróuninni. Þrátt fyrir að eflaust megi gera miklu betur víða þá held ég að við höfum náð góðum árangri í því að stýra fjármagninu. Við sjáum það bara á niðurbroti fjárlaganna að forgangsröðun fjármuna í fjárlögum er þangað sem við viljum helst beina fjármunum. Við erum að setja langmest í heilbrigðiskerfið og félagslega þjónustu, tryggingakerfin okkar.

Kemur til greina að setja hærri fjárhæðir í að spara meira? Ja, þetta er bara gott upplegg og það er ekki hægt að vera á móti þessu. Ég er sammála því að það er alveg örugglega þannig að til eru tegundir af aðgerðum sem við erum með á þjóðarsjúkrahúsinu sem við ættum að taka til skoðunar að létta af þjóðarsjúkrahúsinu. Þetta finnst mér ég heyra frá nýjum ráðgjafa hæstv. heilbrigðisráðherra sem hefur verið að tala aðeins á þeim nótum undanfarna daga, þ.e. að eitt af því sem við þurfum að gera til að hámarka afköst og viðbragðsgetu þjóðarsjúkrahússins sé að tryggja að ekki sé verið að beina þangað inn verkefnum sem hægt er að leysa með einfaldari hætti annars staðar. Aðilinn sem á að sjá um slíka samninga eru Sjúkratryggingar.

Nú koma lög um Sjúkratryggingar eins og þau standa ekki í veg fyrir að slíkir samningar séu gerðir. Þvert á móti. Það er eiginlega beinlínis hlutverk Sjúkratrygginga að gera slíka samninga, en þeir þurfa þá að vera fjármagnaðir. Við þurfum líka að vera miklu betri í því að greina kostnaðinn og geta borið saman valkosti sem við stöndum frammi fyrir. Það held ég að eigi almennt við og allt of víða í ríkisrekstrinum að við erum bara ekki nógu góð að greina tölur til þess að taka ákvarðanir sem byggja á gögnum.