152. löggjafarþing — 14. fundur,  21. des. 2021.

fjáraukalög 2021.

174. mál
[16:07]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Haraldi Benediktssyni fyrir andsvarið. Ég verð bara að segja að það gleður mig ótrúlega mikið að þetta skuli hafa komist í gegn, þessar 53.000 kr. En á sama tíma hef ég áhyggjur af því að hópur eldri borgara gleymist. Það verður vonandi ekki, við höfum alla vega gert breytingu á því að reyna að ná til þessa hóps í atkvæðagreiðslum. En ég furða mig á þessum kostnaði. Er ekki líka tímabært að sundurgreina kostnaðinn vegna skimana, sem hafa verið bæði hraðpróf og PCR-skimanir? Mér virðist að sá kostnaður hlaupi á einhverjum hundruðum milljóna króna. Væri ekki betra, til þess að við áttum okkur nákvæmlega á því hvað verið er að setja mikla peninga í þetta, að þetta yrði allt sundurliðað nákvæmlega, hvað fer í skimun á landamærum, hvað fer í skimun hér innan lands og hvað fer í bólusetningar og kostnað kringum þær? Við þurfum að hafa skýra mynd af því hver kostnaðurinn er. Við sjáum líka, ef við tökum allan þennan kostnað, að þetta eru gífurlegar upphæðir. Ég tel því að okkur beri skylda til að reyna að fylgjast með þessu þannig að þetta fari ekki algjörlega úr böndunum. Við segjum alltaf að ekki séu til peningar fyrir öllu, það heyrist oft þegar verið er að ræða um þá sem mest þurfa á að halda. Þess vegna verðum við líka að fylgjast með því að ekki sé verið að bruðla þarna.