152. löggjafarþing — 14. fundur,  21. des. 2021.

fjáraukalög 2021.

174. mál
[16:15]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Þetta kjarnast samt í þeirri spurningu að á einhverjum tímapunkti ákveða stjórnvöld, ákveður ríkisstjórnin, ákveður fjármálaráðuneytið eða hvaða ráðuneyti sem það er, að segja bara: Nú er fjárheimildin búin. Nú ætla ég að hætta að borga. En það er gert í sumum verkefnum, ekki öllum. Það er vandinn í hnotskurn. Varðandi Hefjum störf þá sáum við að ríkisstjórnin kom hérna eftir að nýbúið var að samþykkja bæði fjármálaáætlun og fjárlög þar sem ítrekað var kvartað undan skorti á vinnumarkaðsaðgerðum. Þá dettur ríkisstjórninni í hug örstuttu seinna að þetta væri frábært. Þetta kosti bara 4,3 milljarða, sniðugt, hérna eru 7.000 ný störf, drögum úr atvinnuleysi. Við tókum undir það en svo kom í ljós að þetta kostaði 9,5 milljarða í viðbót, 6,1 í þessum fjáraukalögum og 3,4 í að úrelda þetta úrræði í byrjun næsta árs.

Er þetta ekki eitthvað sem þingið á að fá fyrir fram, eins og í raun allt annað, eins og stjórnarskráin kveður á um, að það má ekki greiða gjald nema fjárheimild sé til fyrir því? Er það ekki ósiður að vera alltaf að leita fjárheimilda eftir á? Nema það sé sérstaklega samþykkt, segjum t.d. varðandi atvinnuleysi eða lífeyri eða eitthvað því um líkt, að gefin væri heimild í fjárlögum til að uppfylla réttindi allra og koma þá með fjárauka að lokum fyrir nákvæmlega þessi tilfærslukerfi. Það yrði þá upplýst samþykki Alþingis að þetta væru almenn réttindi sem verði borgað fyrir sama hvað. En með eitthvað eins og Hefjum störf — er það sjálfsagt? Eða varðandi NPA — er það ekki sjálfsagt? Hver fær að ákveða hvort fjárheimildirnar haldi áfram og það sé borgað án samþykkis þingsins eða ekki? Hver fær að ákveða það, þingið eða ríkisstjórnin?